14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (4962)

96. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði

Magnús Torfason:

Hv. 2. landsk. sannaði það glögglega í síðustu ræðu sinni, að ég hefi ekki talað ófyrirsynju í þessu máli, því að nú afneitaði hann flestu af því, sem hann lét sér um munn fara í fyrstu ræðu sinni. En svo reyndi hann að koma því á mig, að ég hefði eitthvað verið að færa að mínum gömlu sýslubúum, Ísfirðingum. Þetta er mjög fjarri sanni. Ég hafði aðeins orð á því, að lítið væri þar um jarðabætur vegna óhægrar aðstöðu. Ég man þá tíð, þegar ég var fyrir vestan, að túnasléttur voru þá þrisvar sinnum dýrari þar en hér fyrir sunnan. Ég sléttaði þar sjálfur nokkrar dagsláttur, og varð kostnaðurinn við hverja dagsláttu fullar 600 kr., og var þó tímakaup þá ekki nema 30-35 aurar á klst. Þá kostaði ekki nema rúmar 200 kr. að slétta dagsláttu hér fyrir sunnan.

En það er rétt hjá hv. þm., að margir bændur við Djúpið hafa búið vel, en ekki sízt fyrir þá sök, að þeir geta víðast hvar notað fjörubeit að miklum mun, og ennfremur fengið áburð úr sjónum. Og þeir, sem hafa lesið einhverjar harðindasögur, vita, að sjaldan er getið um mannfall og horfelli við Ísafjarðardjúp, en þar er það sjórinn fyrst og fremst, sem hjálpað hefir, en ekki jarðabætur eða annað slíkt.