18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í C-deild Alþingistíðinda. (4967)

102. mál, fimmtardóm

Flm. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. var að vísu fyrr fram komið en frv. það um sama efni, er til umr. var í gær. En slíkt skiptir nú að vísu ekki miklu máli, því ég býst við, að því verði vísað til sömu n. og athugað samtímis hinu frv.

Þar sem þetta mál var talsvert rætt í gær, get ég verið stuttorður nú, enda er frv. að mörgu leyti gamalkunnugt hér í hv. deild. Að einu atriði, sem felur í sér breyt., verð ég þó að víkja nánar. En áður en ég kem að því, vil ég þó undirstrika það, sem kom fram í gær og samkomulag virðist nú að vísu vera um, að núv. fyrirkomulag á lokadómstóli landsins virðist eigi vera svo, að það skapi fullt réttaröryggi. Þetta hafa menn í raun og veru fundið lengi, og benda þær breyt., er Sigurður Stefánsson vildi gera á þingi 1922 og Jón Magnússon 1924, á það. Á undanförnum þingum hefir verið reynt að umskapa réttinn með því að bera fram frv., sem tæki upp handa réttinum gamla nafnið frá þjóðveldistímanum og gerði aðrar þær umbætur, er í samræmi væru við sambærilega dómstóla flestra annara menningarlandi. Þau atriði komu mjög til umr. hér í gær, svo sem sjálfssköpun dómstólanna, sem hvergi þekkist nema í Danmörku, og allir þar, að undanteknum íhaldsmönnum, vilja losna við. Þessu er og gert ráð fyrir í frv. því, er ég bar fram þá. Ennfremur var gert ráð fyrir því, að í réttinum sætu menn, er í samræmi væru við líf og stefnur nútímans, en það má gera á enn fullkomnari hátt en þar var gert.

Ástæðan til óánægju þeirrar, er komið hefir fram með hæstarétt, liggur í því, að eftir núv. skipulagi er hann algerlega háður einni pólitískri lífsskoðun, sem aðrir flokkar með aðrar lífsskoðanir geta ekki talið heppilegt. Í öllum löndum, nema tveimur, þar sem verið er að koma á einræði, í öðru af ríka fólkinu, hinu af því fátæka, er keppzt að því að koma stjórnarfarinu á lýðræðisgrundvöll. Hér er og svo. Sterkasta stefnan er látin prófa sig í fjögur ár. Þá er breytt um, ef ástæða þykir til. Á þessu fyrirkomulagi er svo byggt um allar merkari stofnanir og framkvæmdir þjóðfélagsins, að hæstarétti einum undanteknum. Hann einn er byggður á fullkominni einræðishugsun. Sá flokkur, sem fékk hann á sitt vald og í samræmi við sína stefnu 1919, er hann var stofnaður, hefir verið einráður þar síðan og mun verða, eins og um er búið. Þetta verkar svo, að jafnvel menn eins og hv. 3. landsk., sem er ánægður með þetta fyrirkomulag og vill halda því, er þó óánægður með útfærsluna á því, eða framkv. skipulagsins, eins og glögglega kom fram í umr. í gær.

Höfuðágreiningur síðasta þings var um þetta atriði, veitingarvaldið, - það hvort rétturinn ætti í gegnum prófraunina að skapa sig sjálfur, prófraun, sem ábyrgðarlausir menn eiga að framkvæma og hafa algerlega í hendi sinni. Fyrir þessu skipulagi barðist íhaldið. Þá kom hv. 3. landsk. á móts við þá og hjálpaði þeim til að halda þessu skipulagi, og því skipulagi vill hann enn halda. En það sýnir þó bezt óánægju hans um réttinn eins og hann nú er skipaður, að hann vill ekki, að gömlu dómararnir komi til greina um veitingu tveggja næstu dómaraembætti. Þau á að veita beint, án þess að taka dómarapróf.

Utan um þetta aðalatriði, dómaraprófið, spunnust svo í fyrra ýms önnur smærri atriði. T. d. eins og það, hvaða ráðh. ætti að veita dómaraembættin. Voru um þetta settir inn fleygar í frv., sem réðu úrslitum um framgang þess þá. En þetta voru þó aukaatriði í samanburði við það aðalatriði, hvort dómurinn ætti að skapa sig sjálfur, eða hvort stj. ætti að skipa í réttinn á venjulegan hátt, eins og hún skipar í önnur embætti. Þar sem staðið hafði í þófi um þetta í þrjú þing, hvort rétturinn ætti að skapa sig sjálfur eða skapast í samræmi við löglega kosinn þingmeirihluta, og málið virtist stranda einmitt á þessu atriði, þá þótti rétt að slá inn á nýjar leiðir um skipun dómsins. Þar sem ekki fékkst samkomulag um það, að stj., sem þó á að vera í samræmi við þjóðarviljann á hverjum tíma, veitti þessi embætti smátt og smátt, eftir því sem þau losnuðu, þá var tilraun að leita eftir því, hvort ekki gæti orðið samkomulag um það, að þjóðin sjálf kysi menn í dóminn, annaðhvort með almennum kosningum, eða þá með kosningu sameinaðs Alþingis, og þá til ákveðins árabils í senn, í samræmi við það, sem þing er kosið til ákveðins tíma og landsstjórn sem afleiðing þess.

Þetta er þá nýmælið í frv. Og þótt undarlegt megi virðast, að þetta komi illa við menn, þá skilst mér þó helzt, að móti því eigi að berjast, ekki með rökum, heldur með lögleysum. Ég skal taka það fram, að fyrir þessum mismunandi skipunarmáta í hæstaréttinn liggja tvær grundvallarstefnur. Annarsvegar er venja sú, sem skapazt hefir í samræmi við hið gamla einvaldsfyrirkomulag um stjórnarfar, en dómsvaldið var nátengt einveldinu lengi fram eftir. Í konungslöndum Evrópu var litið svo á, að dómararnir ættu að vera valdir af einvaldinum og til lífstíðar. En eftir því, sem lýðfrelsi hefir aukizt í menningarlöndunum, hafa og áhrif lýðvaldsins verkað á skipun dómstólanna í gegnum framkvæmdarvaldið, að Danmörku einni undantekinni. Dómsvaldið er því í raun réttri ein grein á meiði lýðvaldsins. Svo var hér og á lýðvaldstímunum. Og er landið gekk konungi á hönd, héldust þó leifar þess valds í höndum þingsins, þar til um árið 1800, að Magnús Stephensen vann að þeim leifum. Það sést því, að ein af afleiðingum lýðræðisfyrirkomulags á stjórnarfarinu er sú, að fólkið ráði dómaskipuninni eins og öðrum skyldum hlutum, svo sem þingvaldi og stjórnarskipun. Þegar Bandaríkin voru stofnuð seint á 18. öld, eftir að hafa brotizt undan valdi Englendinga, tóku þau upp þennan sið að mestu leyti. Þetta sýnir, að frjáls þjóð, þar sem ekki er um neina stjórnarþvingun að ræða, telur það eðlilegan og sjálfsagðan hlut, að dómstólarnir séu háðir fólkinu og beri ábyrgð á gerðum sínum sem aðrir þjónar þjóðfélagsins. Í Bandaríkjunum eru 48 sjálfstæð ríki. Í 38 þeirra eru bæði undirdómarar og yfirdómarar kosnir með almennri atkvgr., líkt og þm. En í 10 þeirra er það svo, að þingin kjósa dómarana, og má segja, að það komi nokkuð í sama stað niður. Um lokadómstól Bandaríkjanna hefir sú tilhögun verið síðan stjórnarskrá þeirra var samþ., að efri deild þingsins velur dómarana. En í þeirri deild, öldungadeildinni, eiga öll ríkin jafna tölu fulltrúa. Þarf, eins og venjulegt er, meiri hl. til þess að dómari nái kosningu, og eru þeir kosnir til lífstíðar, gagnstætt því, sem er í hinum einstöku ríkjum, því þar eru þeir kosnir til 4-6 ára tíma. Eftir því, sem vitað verður, hefir þetta skipulag reynzt vel þar í landi. Er það fjarri Bandaríkjamönnum að hugsa til einræðis í dómsmálum sínum, frekar en öðrum málum. Algengt er þar, að dómari sé endurkosinn, ef hann þykir hafa staðið vel í stöðu sinni og hefir aflað sér trausts með dómarahæfileikum. Er sjaldnast um pólitíska kosningu að ræða í hinum einstöku ríkjum. Kosningin er líkari því, sem hér gerist, þegar um prestskosningu er að ræða, sem sjaldgæft er, að sé pólitísk. Það er venjulega farið eftir öðrum verðleikum með slíka kosningu. Eins er þar. Menn, er hafa vakið tiltrú í dómarastarfinu, eru endurkosnir. Er það svipað og um alþm. hér. Þeir alþm., sem hafa starfað vel, eiga hægra með að ná endurkosningu í kjördæmi sínu heldur en nýr maður, þótt sömu hæfileikum sé búinn. Er þetta stórkostleg hvöt fyrir dómarana að standa vel í stöðu sinni og ávinna sér traust almennings.

Skal ég þá minnast á það ríki, sem um ýmsa hluti er líkast okkur, en það er Svissland. Þar hefir þjóðin verið frjáls um langan aldur og átt við lýðveldi að búa. Þetta hefir eðlilega skapað frjálslyndi og lýðveldishug með þjóðinni. Eru hinar sögulegu ástæður til hugarfars þjóðarinnar mjög hinar sömu og hér eru til staðar. Við byrjum sem lýðveldi og lýðvaldshugsjónin lifir eiginlega alltaf hjá okkur, enda höfum við lítið þekkt til konunga. Er því síður en svo, að óeðlilegt sé, að við sláum inn á hina sömu braut og vel hefir reynzt hjá elzta lýðræðislandi álfunnar, og látum þjóðarviljann ráða skipun dómstólanna sem öðrum málum þjóðfélagsins. - Í Sviss eru dómstólar með kosnum dómurum fyrir hin einstöku fylki. En aðaldómstóll landsins er í Lausanne. Er það 24 manna dómur, kosinn af þingi Svisslendinga til 6 ára. Eftir l. þeirra má endurkjósa dómarana. En til að undirstrika það, að þingvaldið sé undirstaða dómsvaldsins, þá eru þau ákvæði, að ekki má kjósa forseta og varaforseta dómsins nema til 2 ára, og eigi má endurkjósa þá. Þessum 24 manna dómi er svo skipt í 4 deildir, 6 menn í hverri, og verkum skipt milli þeirra. En út í það fer ég ekki frekar, þar sem það kemur þessu máli ekki við.

Ég hefi þess vegna lagt til, að gerð verði meiri breyt. á dómstólnum heldur en nokkru sinni áður hefir verið gerð, það er till. um að samræma dómsfyrirkomulagið við hið pólitíska lýðræði vorra tíma, á þann hátt, að dómararnir verði kosnir fyrir ákveðinn tíma, og ég get endurtekið það, að af þessu nýja fyrirkomulagi leiðir, að ekki er hægt að hafa sem varadómara í fimmtardómi prófessora lagadeildar háskólans, heldur þarf að kjósa varadómendur jafnframt aðaldómendum. Ég vil taka það fram, að þetta er ekki af því, að ég vantreysti núv. lagaprófessorum; ég hygg, að það sé eftir atvikum góð regla að hafa þá fyrir varadómendur meðan það fyrirkomulag gildir, sem nú er.

Af því, sem ég hefi nú sagt, er það ljóst, að það er aðeins um tvær leiðir að ræða um skipun úrslitadómstóls landsins: Önnur er sú, sem farin er í Sviss og Bandaríkjunum og einnig í nokkrum ríkjum innan Bandaríkjanna, að þingin velja dómendurna. Hin leiðin er, að þjóðin kjósi þá með almennri kosningu eða landkjöri. Ég skal taka það fram, að sú leið væri mér geðfelldari, þó ég hafi hallazt að því í frv. að kjósa dómendurna af þinginu, en ég áleit, að komið gæti til mála að beina frv. í hina áttina undir meðferð málsins á Alþingi, ef sú hugmynd fengi betri byr. Gæti landkjör dómaranna t. d. farið fram samhliða kosningum til Alþingis á 8 ára fresti, mundi það verða einna bezt framkvæmanlegt á þann hátt hér, vegna þess hve erfitt er með kjörsókn víða hvar.

Ég hygg, að ég hafi nú gert grein fyrir aðalnýjung þessa frv. Ég álít hana eðlilega viðbót við það frv., sem ég hefi áður flutt hér á Alþingi, viðbót, sem kannske má segja, að hefði mátt vera komin fyrr, en í öllu falli þurfti að koma nú, af því það verður að skera úr því, og það greinilega, hvort þessi dómstóll á að hafa sjálfsköpunarvald eða hvort þjóðin, sem á hann og kostar hann, á einnig að skapa hann.

Ef þetta frv. verður svo giftudrjúgt að komast gegnum þessa umr., legg ég til, að því verði vísað til allshn.