18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í C-deild Alþingistíðinda. (4968)

102. mál, fimmtardóm

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Út af þessari framsöguræðu hv. flm. vildi ég gera nokkurn viðauka við þær upplýsingar, sem hann gaf um þessa tilhögun á kvaðningu dómara í Sviss og Bandaríkjunum. Ég vil fyrst leyfa mér að minna á hið þrískipta þjóðfélagsvald, sem við og nálega allar lýðfrjálsar þjóðir búa við. Sú þjóðmálaskipun var borin fram til sigurs af hinni öflugustu frelsishreyfingu, sem mannkynið þekkir og byrjaði með stjórnarbyltingunni frönsku 1789. Það voru slíkir spekingar, hugsandi menn og rithöfundar, er sáð höfðu í þann jarðveg, er af sér gaf svo stjórnarbyltinguna sem ávöxt, að sá grundvöllur, er þeir fundu, hefir verið viðurkenndur enn þann dag í dag alstaðar þar, sem á honum hefir einu sinni verið byggt. Og sá grundvöllur er þrískipting valdsins, þannig, að í lögunum á að birtast almenningsviljinn, með þeim leggja þjóðirnar sjálfar þann grundvöll, sem allt stjórnarfar að dæma eingöngu eftir lögunum. Ef lögin eru ekki tímabær, þá á löggjafarvaldið að breyta þeim, en meðan lög eru lög eiga dómararnir að dæma eftir þeim á hverjum tíma. Framkvæmdarvaldið er svo verkfæri þjóðfélagsins, sem sér um, að lög og dómar séu framkvæmd. Öll hin lýðfrjálsu ríki Norðurálfunnar byggja á þessum grundvelli, að einu undanteknu. Í Sviss loða ennþá við leifar hins gamla fyrirkomulags, sem hin franska frelsishreyfing skolaði burt úr allri Norðurálfunni nema Sviss. Nú hefir hv. flm. fundið þennan forngrip og heldur, að hann sé einhver ný hugmynd hins nýja tíma, og bendir því á hann til fyrirmyndar. Hann vísar og til Bandaríkjanna, sem settu sína stjórnarskipun fáum árum áður en franska stjórnarbyltingin hófst, og bendir á, að þar hafi þessi aðferð um val dómara enn verið geymd. Þetta er rétt; þau búa enn við þá tilhögun, sem þau tóku á árunum fyrir stjórnarbyltinguna. Það má nú með réttu segja um Bandaríkjamenn, að þeir eru að mörgu leyti ákaflega íhaldssamir við gamlar venjur og búa því að dálitlu leyti við miðaldatilhögun, eins og með skipun síns æðsta dómstóls. Hinsvegar er það eftirtektarvert, að engin þjóð, sem horfið hefir frá því miðaldaskipulagi, hefir stigið sporið til baka yfir í miðaldirnar. Ég veit ekki, hvort nokkursstaðar hefir komið fram till. um að gera það, en nú er hún hér fram komin á Alþingi Íslendinga frá hv. 5. landsk.

Ég skal geta þess, að Svisslendingar hafa mjög greinilega sérstöðu að ýmsu leyti um sín stjórnarskipunarmál, sem er ákaflega merkileg og einkennandi fyrir þá þjóð. Svisslendingar fengu sitt sjálfsforræði fyrir harðvítuga baráttu við nágrannaríkin, sem stóð með blóðugum bardögum öldum saman. Þessi barátta stóð milli elzta hluta Sviss, háríkjanna á fjöllunum, og nágrannaríkjanna eða lágríkjanna á sléttunum umhverfis. Í þessari baráttu fékk þjóðin þann sérstaka þroska, að þeir hafa síðan megnað að viðhalda því stjórnskipulagi, sem þeir þá fengu knúið fram. En þar fyrir má enginn ímynda sér, að þjóð, sem er alin upp við allt aðra þroskamöguleika, geti allt í einu hlaupið eftir fordæmi þessarar þjóðar, tekið upp hennar miðaldatilhögun og byggt á henni farsæla nútíð og framtíð fyrir sjálfa sig.

Ef óhlutdrægt ætti að segja frá um það, hvernig reynzt hefði þessi miðaldatilhögun um dómaskipunina í þessu eina ríki fyrir utan Sviss, sem haft hefir það fyrirkomulag, nefnilega Bandaríkin, þá verður ekki hjá því komizt að segja, að tilhögunin hafi gefizt þar illa, þó það sé kannske bitur sannleikur fyrir hv. 5. landsk.

Það hefir þráfaldlega komið fram megn óánægja og almenn yfir dómstólunum þar, og einmitt út af því, að þeir þykja ekki dæma óhlutdrægt. Ég skal aðeins láta nægja að minna á stórkostlegustu málin, baráttuna gegn hinum stórkostlegu hringum og auðfélögum, sem auðga sig á kostnað almennings. Það hefir viljað ganga misjafnlega að fá dómstólana til þess að fylgja lögunum gegn þessum sterku aðiljum; og af því að dómstólarnir eru háðir hinu pólitíska valdi, þannig, að skipt getur um dóminn um hverjar kosningar, þá hefir hann þótt vera allháður peningavaldinu. Því það hefir nú reynzt svo með kosningar í Bandaríkjunum, að þær hafa viljað verða nokkuð háðar dollarnum. Bandaríkin eru því í þessu efni sízt sú fyrirmynd; sem verið gæti öðrum hvatning til þess að taka upp þeirra miðaldatilhögun. Aftur er mér sagt, að í Sviss hafi þetta fyrirkomulag ekki gefið tilefni til umkvartana, en það stendur í sambandi við þann sérstaka þjóðfélagsþroska, er Svisslendingar hafa öðlazt og svo að segja hefir verið laminn inn í fólkið kynslóð eftir kynslóð gegnum aldalanga baráttu hennar fyrir frelsi og sjálfstæði. Ég vona því, að enginn, hvorki innan þings né utan. láti blekkjast til fylgis við þetta ákvæði frv. Með því hefir hv. 5. landsk. ekki gert annað en að kasta grímunni. Því var lýst, er hv. flm. flutti þetta frv. í fyrsta sinn hér á Alþingi, að tilgangur þess væri ekki annar en sá, að gera æðsta dómstól landsins háðan hinum pólitísku veðrabrigðum í landinu, með því að tryggja þeim pólitíska flokki, sem ráðandi er á hverjum tíma, áhrif á dómstólinn. Það var þá reynt af ýmsum að bera brigður á þessar skýringar, en nú hefir hv. flm. kastað grímunni svo greinilega, því samkv. frv. er dómstóllinn svo greinilega háður hinu pólitíska valdi á Alþingi, þar sem fara á fram kosning allra dómendanna sjötta hvert þing. Ef því einhver meðal dómenda skyldi falla í ónáð hjá pólitískum flokki, eða ef til vill aðeins hjá foringja flokksins, þá mundi hann ef til vill í geðofsa sínum játa flokk sinn kasta þessum dómara, og það kannske strax.

Ég er sannfærður um það, ef til eru þeir menn nú, sem vantreysta hæstarétti, að þá mun svo fara, ef miðaldaskipan hv. 5. landsk. kæmist á, að enginn maður mundi treysta dómstólnum til fulls eða vænta frá honum óhlutdrægra dóma.

Ég ætla því alveg hiklaust að sýna þessu langstígasta afturhaldsfrv., sem með einu skrefi stikar a. m. k. 150 ár aftur í tímann, minn hug með því að greiða atkv. móti því, að það fái að fara til 2. umr.