01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. V.-Húnv. andmælti mjög fastlega þeirri lækkun á skatti á bifreiðum lækna og ljósmæðra, sem felst í brtt. á þskj. 58. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er þar ekki lagt til að afnema neinn skatt, heldur er farið fram á, að þær bifreiðar lækna og ljósmæðra, sem notaðar eru til sjúkravitjana, hlíti sama skatti og almennar mannflutningabifreiðar, en ekki svo kallaðar „luxus“-bifreiðar eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég hefði gaman af að heyra það, ef hv. þm. þekkir til þess í strjálbyggðum héruðum, að þessar bifreiðar séu aðallega notaðar sem „luxus“-bifreiðar. (HJ: Eins mikið sem „luxus“-bifreiðar). Ég hefi heyrt, að alstaðar þar, sem nokkur skilyrði eru fyrir hendi, sé nú reynt að nota bifreiðar til sjúkravitjana, en víða er fátt um bifreiðar og erfitt að ná til þeirra. Í slíkum tilfellum mundi það eðlilega verða meiri hvöt fyrir lækni að eiga bifreið til að ferðast með, ef skatturinn væri lægri. Jafnvel þó ekki sé meir, en sem svarar 60—80 kr. á ári.

Um benzínnotkun smábátanna kom fram mikill misskilningur hjá hv. þm. Það eru einmitt smæstu bátarnir, sem nota benzín til brennslu, sumir þeirra, sem oft ganga ekki nema yfir vorið og sumarið, brenna þetta 300—400 lítrum. Sýnist það æði hart, ef á að skattleggja þessa útgerð sérstaklega með benzínskatti, því víðast er reynslan sú, að benzínvélarnar eru dýrari í rekstri en aðrar mótorvélar, sem útgerðin notar, en eru aðallega hafðar fyrir það, að þær þykja þægilegri í notkun á smábátum.