18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í C-deild Alþingistíðinda. (4970)

102. mál, fimmtardóm

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. En ég sé, að í 4. gr. frv. stendur ákvæði um, að dómara í fimmtardóm skuli kjósa af Sþ. með hlutfallskosningu, og varadómara á sama hátt. En nú segir svo í 57. gr. stjskr.: „Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embættum nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana“. Ég vil spyrja hv. flm., hvernig hann vill samríma þetta tvennt. Ég sé ekki betur en að í þessari 4. gr. felist brot á 57. gr. stjskr., og má það þar af leiðandi ekki verða að l. En þar sem svona stendur á með frv., álít ég, að það ætti í raun og veru ekki að ganga lengra, og beini ég því til hv. flm., að hann athugi þetta.