17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (4977)

103. mál, æðsta dóm

Jónas Jónsson:

Ég get ekki verið sammála hv. flm. um það, að óviðeigandi sé, að maður utan af landi, sem ekki hefir verið embættismaður eða lögfræðingur hér í bænum, beri fram hér á Alþingi till. um breyt. á úrslitadómstóli þjóðarinnar. Ég vildi frekar snúa þessu við og telja það eðlilegast, að slíkar till. kæmu utan af landsbyggðinni, af því að meðal þeirra manna, sem búa í sveitunum, ríkir almennt megnust óánægja yfir ýmsu, sem fram hefir komið í réttarfarinu, einkum að því er snertir hæstarétt. Og þaðan munu síðan koma sterkar öldur, sem knýja fram á Alþ. umbætur á réttinum og fleiru, sem aflaga fer í réttarfarinu.

Hitt er annað mál, hvort hv. flm. þessa frv. hefir verið svo giftusamur, bæði nú og áður, að túlka tilfinningar sinnar stéttar gagnvart réttarfarsmálunum. Ég býst við, að þær upplýsingar, sem hann gaf um, að hann hefði notið aðstoðar tveggja hátt settra embættismanna og lögfræðinga hér í bænum við samningu frv., bendi öllu fremur á, að þar hafi meira gætt áhrifa frá Reykjavík og einstökum mönnum hér í bænum, sem engin samhönd hafa við fólkið úti um land, fremur en frá bændum, sem búast hefði mátt við, að hv. flm. bæri hér fram í þeirra nafni sem flokksfulltrúi þeirra.

Hv. flm. hefði að ég hygg getað rakið undirbúningssögu þessa frv. í vetur betur en hann gerði. Það er kunnugt, að hæstv. dómsmrh. og hans nánustu pólitísku aðstandendur hafa verið að vinna að undirbúningi frv. um breytingar á hæstarétti. (Dómsmrh.: Nei, þetta er eintóm vitleysa). Það er á margra manna vitund. (Dómsmrh.: Ætli ég viti það ekki betur en aðrir, hvað ég geri sjálfur?). Þetta var nú samt sem áður svo, og það er vitað, að hæstv. dómsmrh. getur sagt ósatt og gerir það mjög oft, þegar honum þykir við þurfa. (Dómsmrh.: Ég er a. m. k. eins sannorður og hv. 5. landsk.). Það verða nú aðrir til að dæma um það en við sjálfir, og mun þetta sannast á sínum tíma.

Ýmsir af flokksbræðrum hæstv. dómsmrh. hafa álitið óheppilegt, að stj. flytti frv., og þess vegna var það sveipað huliðsblæju þangað til nú. Þeir höfðu ráðgert að styrkja hæstarétt með því að bæta tveimur mönnum inn í dóminn. Og þar var hugsað fyrir sæti handa hæstv. dómsmrh., ef hagir breyttust eitthvað í landsstj. frá því, sem nú er. Þessar ráðagerðir voru uppi meðal íhaldsmanna hér í bænum fyrir jól í vetur, en síðan hefir ekkert af þeim frétzt fyrr en nú á þinginu, er hv. flm. þessa frv. gerði grein fyrir, að hann hefði notið aðstoðar þeirra tveggja lögfræðinga, er hann nefndi, við undirbúning frv.

Þetta samsuðufrv., sem hv. flm. leggur hér fram, stendur í sama hlutfalli við það fimmtardómsfrv., sem flutt hefir verið á undanförnum þingum, eins og grínmynd við raunverulega sanna mynd.

Ég kem þá að því atriði í grg. frv., þar sem hv. flm. segir, að nauðsynlegt sé, að hinn æðsti dómur sé svo sterkur, að hann njóti fullkomins trausts, og talar um að veita dómnum þann styrk með því að fjölga dómurum í réttinum um tvo, eða úr þremur upp í fimm. Hann lætur svo sem um þetta atriði hafi aldrei heyrzt neitt áður talað. Það lítur út fyrir, að hv. flm. og þeir vísu menn, sem um frv. hafa fjallað með honum, gæti þess ekki eða muni ekki eftir því, að frá 1919-1925 var hæstiréttur skipaður 5 dómurum. En það er mála sannast, eins og kunnugt er, að einmitt á þeim árum kom fram sterkust kritík og andúð gegn réttinum; og það er spursmál um, hvort hann hefir nokkurntíma beðið meiri álitshnekki en á þeim árum. Þá dæmdi rétturinn hinn illræmda dóm í máli Samb. ísl. samvinnufél. og Björns Kr., sem undirbjó aftur hneykslisdóminn í máli Garðars Gíslasonar gegn Tímanum. Í fyrra málinu dæmdu 5 dómarar, og sennilega hefir aldrei þekkzt meira ósamræmi í dómum hæstaréttar en á þessu tímabili, og þess vegna er svo langt frá því, að þessi skoðun hv. flm. um styrk dómstólsins verði rökstudd með dómi sögunnar og reynslu frá þessum árum. Rétturinn hefir máske nú á síðustu árum, eftir að dómarar urðu aðeins þrír, dæmt ýmsa dóma, sem almenningur álítur illa rökstudda, eins og ýmsa af þeim dómum, sem 5 manna rétturinn kvað upp. En tæplega verður meira gert úr mistökum réttarins nú en áður. Hv. flm. segir í grg., að það verði að teljast vafamál, hvort hæstiréttur njóti nú svo almenns trausts borgaranna sem þörf er á. Einstakir dómar og einstök afskipti dómaranna við réttinn muni a. m. k. nokkuð orka tvímælis, jafnvel hjá gætnum og góðum borgurum. - En svo virðist hv. flm. gleyma því aftur um stund, sem hann hafði sagt, dregur því ofurlítið úr, og bætir þessu við, að „sem betur fer muni þó rétturinn njóta allmikils trausts“. Það er að vísu ekki vel skiljanlegt, hvernig þetta tvennt verður samrímað hjá hv. flm., að vafamál sé, hvort hæstiréttur njóti almenns trausts borgaranna, svo sem þörf er á, en að þó muni traustið vera allmikið! En eftir því, sem fram kom í ræðu hv. flm., má þó draga út úr þessu það álit hans, að hæstiréttur njóti nú lítils trausts í landinu, og það er alveg rétt.

Þá er ennfremur í grg. frv. talað um, eins og það væri nýmæli, að komið gæti til mála að gera þessum nýju dómurum að skyldu að gegna aukastörfum fyrir þjóðfélagið án sérstaks endurgjalds, og er í því sambandi bent á tvennskonar störf. Kennslu í lagadeild háskólans og aðstoð við samningu lagafrv. til handa ríkisstj.

Till. um þessi atriði eru bornar fram í öðru frv., sem hér er á dagskrá í dag til breytinga á hæstarétti, og það á miklu gleggri hátt. En í þessu frv. virðist aukastörfunum ekki réttlátlega skipað niður. Það er mjög undarlegt, ef sumir af dómurum þessa réttar eiga að vera háðir öðrum skyldum en hinir, og þessi aukastörf virðast aðeins eiga að ná til viðbótardómaranna. Ennfremur er aðeins þremur dómurum, þeim, er á hverjum tíma hafa síðast hlotið skipun, skylt án endurgjalds, ef lagadeild æskir og dómsmrh. mælir með, að flytja fyrirlestra við háskólann eina stund á viku hvert kennslumisseri.

Eins og nú stendur eiga hæstaréttardómarar ekki að gegna öðrum störfum utan réttarins, og geta að fullnuðu aldursmarki farið frá með fullum launum. En mér skilst, að þessir viðbótardómarar eigi ekki að geta fallið undir það ákvæði að fara frá embætti með fullum launum, þegar þeir eru orðnir 65 ára, af því að þeir hafa gegnt annarlegum störfum auk dómsstarfanna, og virðist það einkennileg ákvörðun.

Annars sagði hv. flm. það berum orðum, að réttaröryggið væri alls ekki nægilega mikið nú í landinu, en að það mætti auka og styrkja með því að fjölga dómurum upp í fimm. Og fannst honum það vera mikið þrekvirki af þessum tveimur spöku lögfræðingum, að hafa fundið þá lausn á málinu! Þetta er að vísu gamalt fyrirkomulag, sem Einar Arnórsson lagði til árið 1919, og gilti það þangað til Jón Magnússon breytti því 1924 og fækkaði dómurum í hæstarétti niður í þrjá.

Svo minnir hv. flm. aftur enn einu sinni á það í grg., að hæstiréttur sé ekki nógu sterkur, að hann hafi orðið fyrir geysilegri kritík og virðingarskorti og að hæstaréttardómarar þurfi að temja sér virðulegri framkomu en hingað til. Virðist þetta vera skynsamlega mælt, enda sýnir það, að hv. flm. hefir sterka tilfinningu fyrir því, að rétturinn sé í miklu ólagi og að þess vegna þurfi að dubba upp á hann. Ég er hv. flm. alveg sammála um þennan undirtón í grg. frv., enda er þetta í fullu samræmi við það, sem ég hefi haldið fram í umr. um fimmtardómsfrv. undanfarin ár. En ég þykist vita, að í þeim flokki, sem við störfum báðir, þá hafi framkoma hans í þessu máli undanfarið átt minni stoð hjá kjósendum okkar og fólki úti um land yfirleitt heldur en afstaða mín.

Þá sagði hv. flm., að ef einn maður ætti að veita dómaraembættin, þá mætti búast við pólitískri hlutdrægni frá hans hálfu. En ég vil benda hv. flm. á það, sem honum er líklega ekki ljóst, að dómaraprófið hefir ekki ennþá komið til greina við veitingu dómaraembættis í hæstarétti. Núv. hæstaréttardómarar hafa allir verið skipaðir af pólitískum ráðh., spursmálslaust og umbúðalaust. Þess vegna hefir allt það gerræði, sem nú er talið, að eigi að fyrirbyggja með dómaraprófi, verið framið síðan 1919. Hv. flm. taldi það vera varasamt ákvæði, að prófessorar lagadeildarinnar gegndu varadómarastörfum í hæstarétti, af því, að meðal þeirra gætu stundum verið reynslulitlir unglingar. Það er að vísu rétt, að nú stendur þannig á, að við lagadeild háskólans er settur kennari, sem ekki er nema 25 ára gamall. En hv. flm. virðist ekki hafa gætt þess, að hinn ungi lagakennari er valinn til háskólans samkv. prófessoradómi. - Það eru 2 stofnanir, hæstiréttur og lagadeild háskólans, sem velja sér starfsmenn samkv. úrskurði þeirra, sem fyrir eru í hverri stofnun fyrir sig. Það hefir verið sagt, að dómaraprófið væri hin bezta trygging fyrir heppilegu dómaravali. En lagadeildin hefir í þessu tilfelli valið mann í kennarastöðu, sem tæplega mun hafa náð kjöraldri, og það algerlega án samkeppnisprófs. Með þessu hefir hún sýnt, hvað hún leggur lítið upp úr aldri og reynslu. Og þetta bendir einnig á það, hversu sjálfssköpunarregla þessara stofnana er lítilsverð. Það mátti vænta þess, að lagadeildin mundi beita hinni mestu gætni um val á nýjum prófessor og skipa fyrir um samkeppnispróf, en fyrir valinu varð unglingspiltur, sem enga praktíska reynslu hefir hlotið. Þær stangast heldur ónotalega þessar sjálfssköpunarreglur hæstaréttar og lagad. háskólans.

Og svo kemur þessi undarlega gagnrýni hjá hv. flm., að ekki sé hægt að nota kennara lagadeildarinnar fyrir varadómara í hæstarétti vegna ungæðis og reynsluskorts, heldur verði að leita eftir lögfræðingum til þess út í bæ, sem fást við innheimtu skulda og aðra álíka merkilega hluti.

Ég ætla svo að leita frétta hjá hv. flm. um eitt og annað, sem máli skiptir og viðkemur frv., t. d. um nafn réttarins. Við erum sammála um, að nafnið hæstiréttur sé ekki nothæft; en svo kemur hv. flm. hér með nýtt nafn á réttinum, sem virðist dálítið undarlegt og er ekki beinlínis táknandi. En þeir, sem reynt hafa að skýra nafnið á íslenzku, telja, að það muni eiga að þýða guðsdómur, enda muni rétturinn almennt verða nefndur því nafni. Hingað til hefir þetta nafn aðeins verið notað um hinn síðasta dóm eftir dauðann. En af því að það mun vera tilgangurinn með þessu frv., að í þessum rétti fái ekki aðrir sæti en íhaldsmenn, þá yrði þetta að líkindum guðsdómur íhaldsins, og er það víst í fyrsta skipti, sem stofnað hefir verið til svo göfugrar samkundu hér á jörðu. Ég veit ekki, hvort biskup landsins og aðrir heitustu trúmenn álíta, að þetta nafn á réttinum sé valið á viðeigandi hátt. Og líklegt er, að þeir óski ekki eftir, að það sé verið að leiða hér fram skopmynd eða eftirstælingu af hinum síðasta dómi - guðsdómi bak við gröf og dauða -, af því að það er ekki víst, að dómurinn hinumegin verði eins íhaldslitaður og þessi dómur á að vera. - Það má nú fyrr rota en dauðrota með þeim ákvæðum, sem hv. flm. og stuðningsmönnum hans hefir tekizt að rígskorða í þessu frv. til tryggingar því, að sama íhaldsklíkan hefði einkarétt til endursköpunar á réttinum.

Í fyrsta lagi er með dómaraprófinu þannig um búið, að þeir dómarar, sem í réttinum sitja, geta fellt hvern þann lögfræðing frá dómaraembætti, sem þeim líkar ekki við, alveg ábyrgðarlaust og án þess að umsækjendur hafi nokkra hugmynd um, af hvaða ástæðu þeir eru felldir frá dómaraprófi. Samkv. þessu frv. er það fullkomlega grunnmúrað, að rétturinn á sjálfur að hafa veitingarvaldið á dómaraembættunum, eins og senatið (öldungaráðið) í Bandaríkjunum hefir veitingarvaldið á dómaraembættum þar í landi, þó að skipunarbréf dómaranna séu undirrituð af öðrum að forminu til. - En það er ekki allt talið enn. Í frv. er þannig um búið, að jafnframt á að útnefna 5 varadómara til 5 ára, og að sjálfsögðu á núv. dómsmrh. að framkvæma þá útnefningu. Það er fyrirfram augljóst, hvernig skipað yrði í þær stöður, þó að ekki sé miðað við annað en veitingu hæstv. ráðh. á sýslumannsembættinu í Húnavatnssýslu og bæjarfógetaembættinu á Ísafirði. Þar gætti hann þess vandlega að fara ekki út fyrir sinn eiginn flokk. Af því má marka, hvernig hann muni skipa í þennan rétt viðbótardómara og 5 varadómara. - Þessir 5 dómaraungar eiga svo að setjast í sjálft hreiðrið, ef aðaldómarar forfallast. Og þegar þeir svo væru búnir að fullnægja sínu dómaraprófi, þá er augljóst, að þessi fyrsta ráðning þeirra sem varadómara getur orðið endanleg, og að þeir muni síðar fá fullnaðarskipun sem aðaldómarar. Með útnefningu þessara dómaraunga getur núv. dómsmrh. fengið fullnaðarvald í hendur til ákvörðunar um dómaraskipun í réttinum næstu áratugi.

Þess vegna er það ekki ákaflega þýðingarmikið hjá hv. flm., að hæstv. forsrh. og ráðherrafundur eigi að veita dómaraembættin. Þeir geta bókstaflega engu um þetta ráðið, fremur en ritvélin ræður því, hvað skrifað er með henni. Ég mun í öðru sambandi, minnast nánar á þessa tilfærslu á veitingarvaldinu milli dómsmrh. og forsrh., en um það var mikið rætt á síðasta þingi.

Þá er það einnig talsvert merkilegt, að þeir lögfróðu menn, sem fjallað hafa um frv., skuli ákveða í 4. gr., að auk héraðsdómara, skrifstofustj. í stjórnarráðinu og málaflutningsmanna við æðsta dómstólinn geti komið til greina sem væntanlegir dómarar í réttinum fulltrúar lögmanns og lögreglustjóra í Rvík, en ekki fulltrúar úr stjórnarráðinu; það er undarleg gleymska. Nú er það augljóst, að t. d. fulltrúinn í dómsmrn. hefir 100 sinnum betri aðstöðu og meiri æfingu við athugun og meðferð á dómsmálum heldur en sýslumenn í ýmsum héruðum, sem dæma ekki nema 2-3 dóma á ári. En þessi fulltrúi verður að grandskoða hundruð af málum og gera till. um meðferð á þeim. Það er því full ástæða til, að hann sé tekinn með í 4. gr. frv. meðal þeirra, sem koma til greina við val á dómurum í réttinn.

Af þessu, sem ég nú hefi bent á, er það sýnt, að hv. flm. hefði ekki veitt af enn meiri aðstoð við samningu á frv. en þessir tveir meðráðamenn hans hafa látið honum í té. Ég hefi nú gengið í gegnum ýms atriði í frv. og grg. og sýnt fram á: í fyrsta lagi, að nafnið á réttinum er mjög óheppilegt og mun óhæfilegra en fimmtardómsnafnið, af því að æðstadómsnafninu fylgir óneitanlega nokkurt grín og sú smekkleysa, er gefur til kynna, að hann þykist nokkuð heilagur. Þessi skynhelgi er svo augljós, að hún mundi verða réttinum til hinnar mestu niðrunar. Í öðru lagi hefi ég bent á, að aðaltilgangur frv. er sá, að skorða réttinn sem fastast um ófyrirsjáanlegan tíma í einum vissum stjórnmálaflokki. Þetta á að tryggja svo sem unnt er, þó að því sé ekki yfirlýst, og sama sem lögbjóða, að þingmenn gefi fyrirfram yfirlýsingu um, að rétturinn skuli aðeins vera skipaður íhaldsmönnum. Með því móti er líklega ætlazt til, að rétturinn viðhaldi sem bezt því guðseðli, sem honum hefir fylgt í höndum íhaldsins! Og þar sem hv. flm. telur, að rétturinn hafi ekki verið nægilega sterkur á þessu sviði með þremur dómurum, þá ætlar hann nú að tryggja réttinum guðseðlið, með því að lögfesta, að föstum dómurum verði fjölgað upp í fimm.

Ég get ekki gert mér vonir um, að réttinum hlotnist beinlínis helgiblær með lögfestingu slíkra ákvæða. Það er aðeins eitt, sem veitir réttinum verulegan styrk og traust almennings, og það eru hans eigin verk. Ef þau skilyrði vantar, að dómarnir séu réttlátir, og þegar þar við bætist, að skipulag réttarins er þannig hugsað, að það eykur tortryggni borgaranna í landinu, þá veitist honum enginn styrkur og ekkert traust.

Ég býst síður við því, að hv. flm. geri það viljandi eða af ásettu ráði að leggja þennan dómstól undir yfirráð einnar flokksklíku í landinu, en því mun líkt varið um hann eins og tæra vatnið í Svartá, að eftir að það er komið í Blöndu, þá ber það sama lit og hún. Hv. þm. er úr sveit og hefir því aðstöðu til að líta á réttarfarsmálin frá sjónarmiði bænda, en eftir að hann kom hingað í bæinn og tók að blanda blóði við þann marglita hóp manna, sem hafa gerzt sjálfboðaliðar til þess að halda nokkurskonar lífvörð um hæstarétt og búið honum þetta frv. í hendur, þá virðist hann hafa fengið sama blæ á sig og þeir.

Hv. flm. sagði, að hv. 2. þm. Árn. væri að einhverju leyti höf. þessa frv., en mér þykir mjög undarlegt, ef svo er, með því að hann hefir reynzt manna skeleggastur í réttarfarsmálum, en hann mun segja til sjálfur um sín afskipti.