17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (4988)

103. mál, æðsta dóm

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Út af því, sem hv. 5. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að ég hefi sjálfur séð þau skjöl í stjórnarráðinu, sem liggja fyrir um það, að Lárus H. Bjarnason fór úr embætti. Hann bað um frí ákveðinn tíma sökum veikinda, en hv. 5. landsk. neitaði um það og veitti honum lausn.

Hv. 5. landsk. sagði, að prófessor Ólafur Lárusson hefði viljað vera áfram í hæstarétti. Það er ósatt. Hann kvaðst hafa svo mikið að starfa, að hann vildi umfram allt vera laus.

En þar sem hv. 5. landsk. var að hæla prófessornum mikið fyrir það, hve vel hann væri fallinn til að vera dómari, sem ég fyllilega tek undir, þá vil ég í því sambandi minna á, að hann er einmitt annar þeirra lögfræðinga, sem hafa yfirfarið þetta frv. og talið það gott.

Þá sagði hann eitthvað á þá leið, að ég hefði setzt á stærsta fjársvikamálið, sem hér hefði komið upp. Þar til vil ég svara honum því, að það er hann, sem sat á því máli í meira en tvö ár, og sat á því svo lengi, að ef til þess hefði getað komið, að menn þessir hefðu unnið til einhverrar refsingar, þá var sú sök fyrnd.