01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil aðeins leiðrétta það hjá hv. þm. Seyðf., er hann hafði eftir mér, að við undirbúning fjárl. fyrir 1932 hefði verið skorið svo nærri kviku, sem fært hefði verið. Það var um fjárlögin fyrir 1933, sem ég hafði þessi ummæli. (HG: Það er sorglegur misskilningur). Það er að vísu rétt, að kreppan var nokkuð farin að gera vart við sig í ágúst 1931, en miklu alvarlegri varð hún eftir það, og fyrir alvöru reið hún ekki á fyrr en í sept. 1931 með falli sterlingspundsins. Og ég minnist ekki þess, að hv. stjórnarandstæðingar vildu draga úr útgjöldum ríkissjóðsins þá, heldur komu þeir með hinar og aðrar till. um aukin útgjöld.

Hv. þm. Seyðf. bendir mér á, að það eigi að skatta ríka menn, en ekki fátæka. Ég held það sé óhætt að fullyrða það, ef aðeins á að skatta ríka borgara þjóðfélagsins, þá muni aldrei finnast þær tekjur, sem ríkissjóðurinn þarfnast nú á tímum, og það eigi langt í land, að hægt verði að taka alla skatta þannig. Ég get t. d. bent hv. þm. á bæjarfélög, sem eins og kunnugt er innheimta megintekjur sínar í útsvörum, sem lögð eru á eftir gjaldþoli manna, hversu erfiðlega sú innheimta gengur, og jafnvel ekkert betur í þeim bæjarfélögum, þar sem jafnaðarmenn hafa meiri hl. í bæjarstj. Og þó telja þeir ófært að leggja skattana eingöngu á hina ríku, enda mun nú verða langt eftir því að bíða, að það verði hægt, og það segir sig sjálft, að geti bæjarfélag ekki tekið upp þá stefnu, þá getur ríkið það enn síður.