15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (5001)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors:

Ég hefi stuttan tíma til að svara þeim andmælum, sem komið hafa fram úr ýmsum áttum. En áður en ég fer að andmæla verstu rakaleysunum, ætla ég að drepa lítilsháttar á það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, er hann hélt því fram, að Siglfirðingar væru allir á móti samningunum.

Ég var nú einmitt að fá símskeyti frá Siglufirði, og hljóðar það svo:

„Á fundi Sjálfstæðismannafélags Siglufjarðar í dag voru svo hljóðandi tillögur samþykktar með 57 samhljóða atkv.:

Fundurinn lýsir trausti sínu á mönnum þeim, er að norsku samningunum stóðu fyrir hönd Íslands og skorar á Alþingi að samþykkja samninginn.

Fundurinn skorar á þing og stjórn að gera nú þegar ráðstafanir, er hefti undirróður kommúnista gegn núverandi þjóðskipulagi.

Félagsstjórnin“.

Sýnir það, að Siglfirðingar eru ekki allir með þessum hv. þm.

Hann var að tala um, að ríkið gæti varið til styrktar bændum því fé, sem það ver til ríkislögreglunnar. En það sjá allir, að ekki er hægt að verja sama fénu til að styrkja bændur og til að halda uppi ríkislögum gegn ofstopamönnum, m. a. hv. þm. sjálfum. Ræður sócíalista hafa staðfest það, að flokkur þeirra tekur afstöðu sína af pólitískum ástæðum. Er það svo sem ekkert nýtt, því að þessi Alþýðuflokkur hefir alltaf metið meira flokkshagsmuni en þjóðarheill.

Ræða hv. þm. Seyðf. var reyndar snjöll, en að öðru leyti ekki annað en léleg útgáfa af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Ég hefi engin tök á að hrekja öll atriðin í þessum ræðum. Hv. þm. Seyðf. sagði, að hagsmunir Norðmanna hér á landi væru svo miklir, að engum óvitlausum manni dytti í hug, að þeir myndu fara að kasta þeim á glæ vegna kjöttolls af nokkrum tunnum. Sagði hann, að Norðmenn hefðu margfalda hagsmuni af viðskiptunum við Ísland. En þetta er nú ekki allur sannleikurinn. Í fyrsta lagi eru tölur þær, sem hann nefndi, ekki alveg réttar. Það sannfærðumst við um við samanburð á þeim skýrslum og norskum hagskýrslum. En þó að þær væru réttar, þá er útkoman sú, að viðskipti okkar við Norðmenn eru ekki nema rúmur 1% af verzlunarveltu þeirra. En sala okkar til Norðmanna er 9% af okkar útflutningi. Það kallar hann, að Norðmenn hafi margfaldan hag af viðskiptunum miðað við íbúatölu og efnahag. Ég kalla þetta reginvitleysu. Og menn verða að muna, að þó að sú upphæð, sem við seljum Norðmönnum kjöt fyrir, sé minni en 1924, þá er sú aðstöðubreyt. orðin á ísl. þjóðfélagi, að okkur dregur meir minni upphæð nú en meiri þá, m. a. af því, að sjávarútvegurinn er ekki fær um að taka á sig verulegar byrðar fyrir landbúnaðinn. Og það er fyrst og fremst að þakka þessum hv. þm. sócíalista, sem andmæla þessum samningi.

Allur samanburður á samningunum frá 1924 og 1932 er af hendi þessara beggja hv. þm. reginvitleysa. Þeir halda því fram, að samkv. samningnum frá 1924 hafi Norðmenn ekki haft leyfi til að reka hér síldarverksmiðju. Þetta sagði hv. 2. þm. Reykv. seinast fyrir fáum mínútum; og ennfremur halda þeir því fram, að samkv. samningnum 1924 hafi Norðmenn heldur ekki haft neitt leyfi til að selja síld í land til söltunar. Ég skal þeim til leiðbeiningar og öðrum, sem á hlýða, til sönnunar, lesa upp kafla úr bréfi Sveins sendiherra Björnssonar til viðkomandi norsks ráðh., — þann kafla, sem staðfestir þennan samning. Hann hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ísl. stj. staðhæfir ákveðið og heldur því fast fram, að ísl. fiskveiðalögin frá 1922 hafi til þessa verið skýrð og framkvæmd með miklum velvilja gagnvart Norðmönnum. Ég hefi heimild til að lýsa því yfir, að 1. verði einnig framvegis skýrð og framkvæmd með miklum velvilja gagnvart Norðmönnum, ef viðunanlegt samkomulag fæst (ákveðið verður að lækka kjöttollinn).

Til þess, ef verða mætti, að greiða slíku samkomulagi götu, eru eins og ég hefi haft þá sæmd að tjá statsráðinu, Íslendingar reiðubúnir til, út af umkvörtunum þeim og óskum, sem fram hafa komið af Norðmanna hálfu, ennfremur að vera samkomulagsfúsir um eftirfarandi atriði“.

Svo koma þessi atriði, sem Ísl. ættu ennfremur að vera samningsfúsir um. Hvað þýðir þetta „ennfremur“? Það þýðir til viðbótar þeim hagsmunum, sem Norðmenn höfðu 1924, þegar samningurinn var gerður. Og 1924 var svo ástatt í þeim efnum, að Krossanesverksmiðjan mátti kaupa ekki 60% af því, sem hún þurfti, heldur 100% af erlendum skipum, og erlend skip máttu selja samkv. almennum skýringum ráðuneytisins 500-700 tunnur til söltunar, eftir því hvort um reknetaskip eða snurpinótaskip var að ræða. Af þessu sjá menn, að það er ekki nema eintómur misskilningur, — að ég ekki kalli það ósannindi, — þegar sagt er, að Norðmenn hafi engra fríðinda notið hér á landi. Það er skýrt og ótvírætt eftir samningunum frá 1924, að þeir haldi áfram að njóta fríðinda þeirra, sem þeir nutu áður en samningurinn var gerður. Og þau koma ótvírætt í ljós í þeim heimildum Norðmönnum til handa, sem ég hefi nú greint.

Þá er það náttúrlega ákaflega mikil meinloka, þegar haldið er fram, að eftir þessum nýja samningi verði einhver önnur og stórum bætt aðstaða fyrir Norðmenn til að selja síld í land til söltunar. Ég gerði nokkra grein fyrir þessu í ræðu minni í gær, og sannaði, að hæstu líkur um hækkun samkv. þessari heimild, er frá 10 þús. og upp í 25 þús. tunnur. Og það er náttúrlega ekki annað en bláber vitleysa og ósæmileg tilraun til að blekkja menn, þegar hv. þm. Seyðf. og hv. 2. þm. Reykv. halda fram, að þessi réttindi geti allur norski flotinn öðlazt með því einu að gera málamyndasamning við Krossanesverksmiðjuna. En svo að ég víki að því, sem hv. þm. sagði, þá dugar ekki að ganga fyrst og fremst út frá, að samningar séu sviknir. Menn verða að ganga út frá, að samningurinn verði haldinn. Ennfremur vil ég sýna fram á, að það eru engar líkur til, að um nein svik verði að ræða í þessu efni. Það er af þeirri ástæðu, að Krossanesverksmiðjan, sem er einkafyrirtæki, er algerlega óháð almennum hagsmunum þeirra norsku veiðimanna, sem hér stunda veiðar. Nú er það svo, að þau norsku veiðiskip, sem hingað leita, öðlast ekki þessi fríðindi, sem hér er um að ræða, nema þau geti lagt fram sölusamning um bræðslusíld til Krossanesverksmiðju, sem gildi yfir allan síldveiðatímann. Líkur fyrir því, að þessi verksmiðja fari að gera leik að því að svíkja þennan samning, eru engar, af þeirri ástæðu, að það er gagnstætt hennar hagsmunum. Verksmiðjan hefir líka sjálf á undanförnum árum kveðið upp reynslunnar dóm um það, hversu mörg veiðiskip þarf að skipta við til þess að fullnægja þörfinni. Hún hefir skipt við frá 15—25 skip og aldrei fleiri. Þetta er þá reynslunnar dómur. En færi nú verksmiðjan að gera samning við t. d. 100 skip, þá er hún orðin ber að því að vera meðsek í tilraun til að svíkja þessi samningsákvæði í því skyni að rýra íslenzka hagsmuni til framdráttar norskum hagsmunum. Hið eina svar Íslendinga verður þá að taka öll leyfi af verksmiðjunni.

Auk þess liggur í hlutarins eðli, að því fleiri norsk skip, sem selja í land, því óvinsælli verður samningurinn og því meiri líkur eru til, að samningnum verði sagt upp. En þá verður enginn aðili jafnhart úti sem Krossanesverksmiðjan. Hvaða líkur eru til, að sá aðilinn, sem mest á í húfi, gerist til þess í óeigingjörnum tilgangi að leggja alla sína hagsmuni á borðið? Til þess eru engar líkur. Þessar fullyrðingar þingmanna sócíalista eru þess vegna ekkert annað en bláber vitleysa og svo fjarri því að eiga nokkra stoð í ákvæðum samningsins. Þær eiga ekki einu sinni stoð í samningnum, þótt Krossanesi væri í sjálfsvald sett að setja samningsrof í staðinn fyrir samning.

Allir útreikningar hv. þm. Seyðf. um það, hver aukin hlunnindi Norðmenn eignist með samningnum eins og hann liggur fyrir, er helber vitleysa.

Aðalatriðið er, að skýringin um söluheimild á 700 tunnum samkv. fiskiveiðalöggjöfinni stendur óhögguð. Eftir þeirri heimild og að óbreyttri og óbreytanlegri fiskveiðalöggjöfinni og ógerðum samningnum, þá höfðu norsk skip leyfi til að selja hér í land 140 þús. tunnur. En eins og ég sagði í ræðu minni í gær, þá eru svo fáir kaupendur fyrir þessa síld í landi, að af þessu ákvæði stafaði lítil sem engin hætta, og a. m. k. leiddi sú hætta ekki af þessum samningum. Og allt, sem hv. þm. sagði um leppa, og allt, sem hann vitnaði til Björns Líndals, það var fyrir hendi í ríkum mæli, hvort sem þessi samningur verður samþ. eða ekki.

Ég hefi í ræðu minni í gær sýnt alveg greinilega fram á, að samningurinn frá 1924 er verri en þessi, bæði vegna þess, að kjöttollurinn var 43 kr. á tunnu, en nú ekki nema 22 kr. 80 aur., og eins vegna þess, að þau fríðindi, sem við áttum að láta samkv. honum, voru meiri en þau, sem við látum samkv. þessum samningi.

En þá verð ég að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. sócíalista: Hvernig stendur á því, að þeir, þessir vísu feður, sem nú þykjast umfram allt vilja vera á verði fyrir hagsmuni útgerðarmanna og krefjast slíks af öðrum, að þeir hafa aldrei hreyft með einu einasta orði að segja upp þessum samningi, fyrst þeir álitu þessi hlunnindi Norðmanna svo hættuleg vegna samkeppni við Íslendinga? Hvað var þá orðið af þeirra föðurlegu umhyggju? Sváfu þessar heillavættir þessi ár? Ég vænti svars. Annars verða það fleiri en ég, sem sjá, að hér eru meira en meðalóheilindi á ferðinni. Það er alkunnugt, að hv. þm. sócíalista settu upp sorgarandlit, þegar fregnin flaug, að Norðmenn hefðu sagt upp samningnum. Hvar er samræmið í þessu? Svari þeir, ef þeir geta.

Hér hefir verið spurt um það, hvort hægt sé að bæta bændum upp tjónið, sem þeir verða fyrir, ef þessi samningur nær ekki lögfestu. Það má náttúrlega spyrja svo í fullri alvöru. En þó held ég, að það sé ekki svo mikil ástæða til þess nú að spyrja svo, vegna þess að þessi samningur fer ekki fram á neitt annað né meira endurgjald Norðmönnum til handa en svo, að við Íslendingar getum okkur að skaðlausu látið það. Hitt getur náttúrlega alltaf komið fyrir, að Norðmenn eða aðrar þjóðir heimti af okkur slíkt endurgjald fyrir þegin fríðindi, sem við þyrftum á að halda, að við sjáum okkur ekki fært að láta það í té. Þá er það, sem svona spurningar rísa upp með fullum alvöruþunga. En eins og málið liggur nú fyrir, tel ég ekki þörf að grípa t. d. til nýrra skattaálagninga, og muni sízt verða bændum til framdráttar, ef þeir eiga að fara á mis við þau fríðindi, sem samningurinn veitir þeim. Ég held, að hefndartollur á veiðiskap geti verið mjög beggja handa járn og haft margvísleg miður heppileg áhrif, og sé því ísl. þjóðinni enginn hagur að ræða slíkt opinberlega að svo komnu máli. Þess ber að gæta, að þótt Norðmenn ásamt öðrum þjóðum yrðu útilokaðir frá að selja afla í land, þá er ekki lokið samkeppni við ísl. veiðimenn. Norðmenn mundu grípa til söltunar utan landhelgi á stórum skipum, eins og á undanförnum árum. En það er það, sem jafnaðarmenn hafa verið síæpandi og kveinandi út af, að Norðmenn og aðrar þjóðir gerðu. Og það sýnir alvöruleysið, — að ég ekki segi strákskapinn, — og ungæðisháttinn hjá hv. þm. Seyðf., þegar hann er að tala um að leysa þörf bænda með því að leggja á verndartoll svo háan, að hann bægi erlendum skipum frá sölu á íslenzkum markaði. Með því fengju bændurnir náttúrlega ekki neitt, því auðvitað er ekki hægt að hafa verndartollinn svo háan, að hann afstýri allri samkeppni við ísl. fiskimenn, en sé þó jafnframt tekjulind fyrir ríkissjóðinn. Öll framkoma jafnaðarmannanna í þessu máli ber vott um það, að þeir hafi, eins og ég sagði í gær, ekki tekið afstöðu til þessa samnings út frá efnislegu sjónarmiði, og ég held það sé rétt, að ég segi dálítið nánar frá framkomu þeirra í málinu.

Ég vil þá byrja með að segja frá því, að um það bil sem samningar hófust hér í Rvík, bar hv. 2. þm. Reykv. fram ósk um að fá að taka þátt í þeim. Þessu var nú neitað, aðallega af því, að við samninganefndarmennirnir töldum okkur ekkert lið að þekkingu og vitsmunum þessa hv. þm. Út af þessu mun hann hafa fyrzt. Og þó verð ég að segja, að þegar við komum heim og samningarnir voru ræddir í utanríkismálanefnd, þá var ekki annað að sjá en að eymslin eftir hryggbrotið hefðu minnkað. Hann virtist taka samningnum vel og þ. á m. því ákvæðinu, sem hefir orðið honum að fótakefli þ. e. a. s. þagnarheitinu. Ég sé á eftir, að hann hefir einungis verið að bíða eftir færi. Þegar hann var búinn að tala við sér ófróðari samherja sína, eins og hv. þm. Seyðf., þá langar hann til að ná höggstað á okkur, og vílar ekki fyrir sér að svíkja það heit, sem þjóðirnar gáfu hvor annari um að birta ekki samninginn nema með gagnkvæmu leyfi beggja aðilja. Sú afsökun, sem hv. þm. bar fram í gær, er beinlínis hlægileg, að hann hafi ekki verið bundinn, sökum þess að hann væri stjórnmálaandstæðingur okkar. Það má segja, að ísl. stj. hafi nokkra afsökun, þar sem hún hefir ekki beinlínis svikið heitið, en það er engin afsökun fyrir ísl. málstað, að þingmaður, sem á sæti í utanríkismálanefnd, sviki slíkt þagnarheit, og fyrir það verða allir að bera kinnroða gagnvart erlendri þjóð. Ef Íslendingar gera sig bera að því að rjúfa heit sín og eiða gagnvart erlendum þjóðum, þá líður fljótt að því, að við verðum ekki virtir viðtals.

Hv. 2. þm. Reykv. er áreiðanlega ljóst, að þetta var vitavert framferði. En hann var búinn að ákveða að berjast á móti samningnum, og hann vílaði ekki fyrir sér að leita að, þessu vopni í því skyni, eins og hann sjálfur sagði, að verða á undan okkur, sem virtum þagnarheitið, til þess að vera búinn að skapa andstöðu gegn samningnum, þegar við gætum tekið til máls. Síðan hefir hann látið blað sitt fara með allskonar vitleysu um þetta mál. Alþbl. hefir teflt fram sínum lítilsigldu mönnum og einskis svifizt til að varpa fölskum blæ yfir samningana. Þegar svo á þing kemur, þá ber hv. 2. þm. Reykv. það á norsku stj., að hún hafi mútað mér til að ganga á mála hjá Norðmönnum. Þetta var fyrir fáum dögum. En í gær var hann með margvíslegar dylgjur um það, að einstök ákvæði samningsins hefðu miðazt við persónulega eða pólitíska hagsmuni mína.

Ég álít, að þessi bardagaaðferð sé alveg samboðin málstaðnum; og hún ber vott um það, að hv. sócíalistar skilji sjálfir, að þeir verja rangan málstað.

Ég skal nú játa, að þegar hv. 2. þm. Reykv. og Alþbl. ákváðu að vera á móti samningnum, höfðu þeir misskilið hann í höfuðatriðum. Þeir héldu, að Norðmönnum heimilaðist að salta hér í landi. Ég sýndi hv. 2. þm. Reykv. fram á, að svo væri ekki. Þá nefndi hann sem höfuðgalla samningsins, að Norðmenn mættu umhlaða afla skipa á milli á höfnum inni. Einnig það sýndi ég honum, að væri misskilningur. Þá vildi hann byggja andstöðuna á því, að ef enginn samningur gilti, en að óbreyttri fiskveiðalöggjöfinni, mættu Norðmenn enga síld selja í land. Ég skýrði nú fyrir honum ákvæði fiskveiðalöggjafarinnar og sannaði honum, að þetta væri misskilningur; en hann taldi það rangt hjá mér, af því að einhver Finnur Jónsson héldi fram því gagnstæða. En þetta hefir hv. þm. þó skilizt. Nú skyldi maður halda, að þegar hann sá þetta allt, hefði hann breytt aðstöðu sinni og orðið glaður við. En því fór fjarri. Hann varð vandræðalegri og raunalegri á svipinn eftir því sem honum varð ljósara og ljósara, að samningurinn væri hagstæðari og hagstæðari ísl. hagsmunum.

Hvað sannar þetta? Að þessi hv. þm. og flokkurinn hafa tekið afstöðu um andstöðu til samningsins eingöngu út frá pólitísku sjónarmiði, en ekki út frá því, að samningurinn væri Íslendingum óhagstæður. Af hverju varð hv. þm. óánægður, en ekki ánægður, þegar ég benti á, að allt væri betra en hann hafði álitið? Af hverju! Af því að honum þótti erfiðara að verja rangan málstað eftir en áður.

Það má vel vera, að andstaða sócíalista gegn samningnum eigi fyrstu upptök sín í því, að hv. 2. þm. Reykv. var neitað um að fá að vera með í n., en þessi andstaða fengið framrás m. a. vegna þess, að þessi flokkur er algerlega sneyddur nauðsynlegum skilningi á þörfum bænda og samúð með þeirri stétt. Þessi andstaða á sér sínar dýpstu rætur í því, að sócíalistar ætluðu að seilast til pólitísks vinnings. Það kom gleggst í ljós í dag, þegar hv. 2. þm. Reykv. var að skipta heiðrinum og skömminni af samningnum milli mín og Jóns Árnasonar. Þá átti Jón heiðurinn fyrir að fá kjöttollinn lækkaðan, en ég skömmina fyrir að hafa keypt tolllækkunina of dýru verði. Af hverju talar þm. svona? Af því að sócíalistar hafa enga von að vinna fylgi bænda í þessu máli, en frekar sjálfstæðismanna.

Þetta leyndi sér ekki í gær, þegar hv. þm. var að reka upp neyðaróp hér í þingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Hann þóttist vera að spyrja að því, hverjir og hvar væru forvígismenn sjálfstæðismálanna, þegar Norðmenn, sem ætluðu að gleypa Grænland og St. Josephsland, ætluðu nú að gera það sama við Ísland! Ég segi bara: Heyr á endemi! Þegar þessi maður og þessi flokkur, sem frá öndverðu hafa alltaf allt viljað opna á víða gátt, þegar þeir ætla nú að látast vera útverðir ísl. þjóðrækni og verndarar ísl. réttinda á Alþingi! Var það ekki þessi flokkur, sem greip fram í viðræður Dana og Íslendinga 1918 og krafðist þess, að Danir hefðu sama rétt á Íslandi sem Íslendingar? Er það ekki þessi flokkur, sem aldrei hefir mátt heyra, að erlendum manni væri neitað um bón. Útlendingar hafa aldrei beðið svo um leyfi til að stofna atvinnurekstur, að þessir menn hafi ekki rétt fram báðar hendur og viljað veita ótakmörkuð leyfi. Eru þetta ekki mennirnir, sem síðast í fyrra kröfðust þess, að erlendum manni skyldi heimilt að reisa bræðslustöð á Seyðisfirði og erlendum skipum skyldi heimilt að selja þar afla sinn? Ég veit ekki betur en að þessir lýðskrumarar hafi sí og æ verið reiðubúnir til að þjóna erlendum hagsmunum. Og ég verð að segja, að þegar þessir menn fara svo að aðvara sjálfstæðismenn í landinu og kvarta um andvaraleysi þingmanna flokksins í velferðarmálum og sjálfstæðismálum þjóðarinnar, þá verðskulda þeir einungis eitt og sama svarið frá öllum annesjum og til afdala á þessu landi: Vei yður, þér hræsnarar!

Nei, hæstv. forseti, það þýðir ekkert að reyna að siða hv. 2. þm. Reykv. Helzt væri að stinga honum ofan í olíutunnu!

Það þýðir nú ekkert fyrir hv. 2. þm. Reykv. að ætla að blekkja sjálfstæðismenn almennt með slíkri fásinnu. Þeir vita, að þessi maður hefir til þessa verið alveg óhræddur við það að skapa erlendum milljóna-olíuauðhring herraréttindi yfir íslenzkum útgerðarmönnum. Og þeim dettur ekki í hug, að slíkur maður skjálfi af ótta, þótt viðurkennd séu Norðmönnum til handa fríðindi eins og flestar menningarþjóðir bjóða hver annari, og það endurgjaldslaust.

Og útgerðarmönnum vildi ég segja það, að ef þeir geta ekki áttað sig á öðru í þessu máli, þá ættu þeir að skimast um í hópnum, sem þeir eru komnir í, — hverjir nú bjóðast til að lyfta fána útgerðarmanna. Það er ekkert óglæsileg forusta, sem þeir hafa fengið í sócíalistabroddunum, mönnunum, sem í mörg ár hafa verið höfuðfjandmenn þessarar stéttar. Og mín spá er nú sú, að þeir verði ekki allir ellidauðir, útgerðarmennirnir, sem nú kunna að slást í hóp með sócíalistum, áður en þeim skilst, að með því að leita skjóls hjá slíkum mönnum hafi þeir falið úlfinum að gæta lambanna. Mín afstaða til sjávarútvegsins er einnig nokkuð kunn orðin, og þarf ég ekki um það að ræða. Enda er það svo, að þótt ég sé síður en svo óvinveittur bændastéttinni, sem mér þó hefir verið borið á brýn mjög ranglega, þar sem ég hefi aldrei í orði eða verki lagzt gegn hagsmunamálum bænda, þá er hitt satt, að ég hefi haft allt aðra og betri aðstöðu til að skilja hagsmunamál útvegsmanna, af því að ég er úr þeim jarðvegi sprottinn. Ég vænti þess, að útgerðarmenn væni mig ekki um það, að ég gerist nú níðhöggur þeirrar stéttar.

Ég vil svo að lokum segja þetta: Áður en ég tók ákvarðanir mínar þessu máli, hafði ég reynt að kynna mér það frá öllum hliðum, og ég held, að ég hafi haft góða aðstöðu til þess. Ég hefi svo gert það eitt, sem ég vissi sannast og réttast, og þess vegna hafa árásir andstæðinganna engin áhrif á mig. Ég hefi sterka sannfæringu fyrir því, að minn málstaður sé réttur og alþjóð fyrir beztu. Frá þeirri sannfæringu vík ég ekki hársbreidd, hvað sem hver segir.