01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég trúi því alls ekki, sem hv. 3. þm. Reykv. segir, að hér í bænum séu mörg hundruð bifreiða, sem sama sem aldrei komi á vegakerfi landsins, þar sem þjóðvegirnir ná að heita má alveg inn í bæinn. Ég trúi því t. d. ekki, að það séu hundruð bifreiða, sem aldrei koma hér inn að Elliðaánum. Það er vitanlegt, að allar fólksflutningabifreiðar aka mikið fyrir utan bæinn og vörubílar hér í bænum skipta alls ekki mörgum hundruðum, svo þetta getur ekki verið rétt hjá hv. þm. Auk þess eru margir vörubílar hér, sem aka flutningi út um héruðin, fyrir utan alla fólksflutningana. Alla leið norður á Akureyri koma langflestar bifreiðar héðan úr Rvík, miðað við nokkurn einn stað.

Ég get ekki látið ómótmælt þeim ummælum hv. þm. Seyðf., að þessi skattur sé ekki lagður á eftir gjaldþoli þegnanna a. m. k. að nokkru leyti. Ég veit ekki betur en að fátæklingar og sveitamenn ferðist yfirleitt mest með flutningabifreiðum og þar næst leigubifreiðum, en efnaðir borgarar, einkum í kaupstöðum, nota hinar svokölluðu „lúxus“-bifreiðar, en á þeim er langhæstur þungaskattur eins og kunnugt er, lægri á leigubifreiðum og enginn á flutningabifreiðum. (HG: Það er benzínskatturinn, sem mestu skiptir um). Það er rétt, að benzínskatturinn er meiri hluti bifreiðaskattsins, en þrátt fyrir það er rangt að segja, að bifreiðaskatturinn sé lagður jafnt á fátæka og ríka tillitslaust.