31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Hv. 3. landsk. talaði um þann hluta bifreiðaskattsins, sem ráðgert er að falli til vega í kaupstöðum, eins og það væri framlag úr ríkissjóði. Þetta er misskilningur. Sá hluti af skattinum, sem ganga á til vega í kaupstöðum, er ekkert framlag úr ríkissjóði. Þessi l. eru að því leyti í samræmi við hliðstæða löggjöf annara þjóða, að bifreiðaskatturinn rennur samkv. þeim ekki í ríkissjóð, heldur er honum skipt niður á annan hátt. Hér stendur, að lögreglustjórar skuli innheimta skattinn, og tollstjórinn hér í Rvík, og fari reikningsskil eftir því, sem ráðuneytið skipar fyrir. Ég lít svo á, og hefi litið svo á frá öndverðu, að tekjurnar af bifreiðaskattinum verði eign þeirra aðila, sem 1. ákveða, að skuli hreppa þær. Þetta er að vísu fremur formsatriði heldur en efnisatriði. En mér virðist það þó hafa haft nokkur áhrif á hugsun þeirra hv. þm., sem flytja brtt. á þskj. 284. Það er eins og þeim finnist eðlilegt að setja samskonar skilyrði fyrir því, að eigendur þessa fjár megi nota það, eins og finna má í löggjöf fyrir framlagi úr ríkissjóði til þeirra. En það finnst mér alls ekki viðeigandi. Það ákvæði, sem n. hefir stungið upp á, að kaupstaðir og verzlunarstaðir verði skyldaðir til þess að leggja fram á móti þeirra hluta af skattinum sömu upphæð til varanlegra vegabóta, er ekki gert með það fyrir augum, að hér sé um styrk að ræða, heldur á það að vera til þess að herða á því, að meiri umbætur verði gerðar á þessu sviði heldur en hægt er að gera fyrir skattinn einan. Nú hefir vegamálastjóri stungið upp á að krefjast tvöfalds framlags á móti þeim hluta skattsins, sem ganga á til kaupstaða og verzlunarstaða. Það vill nú svo til, að hér er aðallega að ræða um vegi, sem samkv. landslögum eru utan við verksvið vegamálastjóra, nefnilega vegina í kaupstöðum landsins. Og till., sem snerta þá vegi, get ég ekki metið eftir því, hvort þær koma frá vegamálastjóra eða öðrum. Þessari till. mun ætlað að auka hraða framkvæmdanna, en spurningin er einungis sú, hvort borgararnir hafa gjaldgetu til að bera þann hraða uppi. Ég álít ekki rétt að heimta meira en jafnt framlag á móti þessum hluta skattsins, sem kaupstaðirnir og kauptúnin eiga að fá. Ég er viss um, að ef kaupstaðirnir og kauptúnin finna hjá sér getu til þess að hafa meiri hraða á framkvæmdunum, þá geri þau það án þess þau séu knúin til þess.

Ég er alls ekki sammála hv. 3. landsk. um það, að þetta komi ekki til greina nema í Rvík. Samkv. till. n. á ráðh. að skipta þessu fé milli kaupstaðanna og kauptúnanna í landinu. Og ég býst ekki við, að nein stj. geri kaupstaðina úti um land afskipta. Að vísu mun hlutur smærri staðanna sennilega verða of lítil til þess að ráðast í lagningu malbikaðra vega þar árlega. En þá geri ég ráð fyrir, að gangur málsins verði sá, að upphæðum þeim, sem í hlut smærri verzlunarstaðanna falla, verði safnað saman í nokkur ár, þangað til hægt er að taka fyrir dálítinn vegarkafla í einu. Og ég tel enga tryggingu fyrir því, að fjárhag þeirra verzlunarstaða verði svo varið, að þeir geti þvingunarlítið lagt fram af öðrum tekjum sínum tvöfalda upphæð á móti skattinum þau árin, sem ráðizt yrði í framkvæmdir. Ég hygg, að með því sem n. fer fram á, að áskilja jafna upphæð á móti, sé farið eins langt og tiltækilegt er í þessu efni.

Þá vildi hv. 3. landsk. gera samanburð á sýslum og kaupstöðum í þessu efni, og sagði, að sýslurnar fengju ekkert úr ríkissjóði til sinna vegamála, nema þær legðu sjálfar fram til vegaviðhalds og vegagerða a. m. k. 20/00 af matsverði fasteigna. Á því á að vera byggt ákvæðið í brtt. á þskj. 284 um, að framlögin til varanlegra vega séu bundin því skilyrði, að „hlutaðeigandi bæjarfélag, sýsla eða kauptún verji á því ári til vegaviðhalds að minnsta kosti sem svarar 20/00 af verði fasteigna innanbæjar, sýslu eða kauptúns eftir fasteignamati“. Ég skildi þetta orð, vegaviðhald, eins og venjulegt er að meina með því, að þar væri ekki átt við lagningu nýrra vega, heldur aðeins viðhald eldri vega. En mér fannst á ummælum hv. 3. landsk., að hann slá hér úr og í; að hann e. t. v. eiga við, að lagt væri fram vegafé í heild til nýrra vega og vegaviðhalds, sem svaraði 20/00 af fasteignamatsverði kaupstaðarins. Ef þetta er meiningin, að það megi telja framlag kaupstaðanna til nýrra vega með í þeirri upphæð, sem þarf til að fylla þessi 20/00, þá getur e. t. v. orðið eitthvert vit úr þessu, en þá er líka þessi brtt. gersamlega óþörf. Ég hygg, að það liggi í hlutarins eðli, að smærri verzlunarstaðirnir myndu það árið, sem þeir ráðast í malbikunarframkvæmdir og ættu að leggja fram, hvort sem það nú væri einu sinni eða tvisvar sinnum, sömu upphæð á móti samansöfnuðum bifreiðaskatti nokkurra ára, reyna að draga úr venjulegu vegaviðhaldi og vegaframkvæmdum, til þess að geta fengið sem mest fé til malbikunarinnar. Einnig í þeim tilfellum held ég, að óeðlilegt væri að hafa þetta sérstaka ákvæði um 20/00 framlag til vegaviðhalds, nema því aðeins, að telja mætti þar með það, sem lagt væri á árinu fram á móti bílaskattinum. Ég hefi ekki athugað, hvernig það tæki sig út í framkvæmdinni, ef út í það væri farið, en ég er nokkurnveginn sannfærður um, að þetta væri alveg þýðingarlaust ákvæði. Í flestum tilfellum myndu kaupstaðirnir leggja fram til vega alls sem svarar 20/00 af fasteignamatsverði hvort sem er. Hitt ákvæðið, um einfalt framlag á móti bifreiðaskattinum eins og n. leggur til, eða tvöfalt eins og brtt. hv. 3. landsk. gerir ráð fyrir, mundi alveg nægja til þess að ýta undir framkvæmdirnar þau árin, sem í malbikun er ráðizt.

Það eru því engin rök fyrir því, sem hv. 3. landsk. var að tala um, að vegakostnaðurinn hvíldi ekki þungt á Rvík, ef hann færi ekki fram úr 20/00 af matsverði fasteigna í bænum. Ég átti aðeins við vegaviðhaldið út af fyrir sig. Kostnaðurinn við vegaviðhald og götulagningar til samans fer langt fram úr þessu.

Loks gat hv. þm. þess, að malbikuðu göturnar virtust endast illa hér í Rvík. Það er alveg rétt. Bærinn hefir ekki ennþá haft efni á að fá þau tæki, sem þurfa til þess að ganga svo vel frá malbikuðum götum, að þær verði varanlegar. Þess vegna endast göturnar hér í Rvík svona illa. Og höfuðástæðan til þess, að ég er með þessu frv. um bifreiðaskatt, er sú, að ég sé nauðsynina á því, að hér eins og annarsstaðar verði farið inn á þá braut að gera varanlegt slitlag á vegina þar sem umferðin er mest. Fyrst þarf að útvega þau tæki, sem til slíkra framkvæmda eru nauðsynleg, og það má ekki búast við, að sá hluti af bifreiðaskattinum, sem ætlaður er til þessara hluta, hrökkvi til þess að gera meira fyrsta árið heldur en að kaupa þessi tæki. En þá er líka lagður grundvöllurinn að því, að byrjað geti hér þær framfarir í vegagerð, sem orðið hafa í öðrum löndum síðan bifreiðaumferðin kom til sögunnar.

Ég held fast við það, að hvernig sem brtt. hv. 3. landsk. eru teygðar og togaðar, þá færi bezt á því, að þær væru teknar aftur að svo stöddu. Og í öllu falli verð ég að ráða hv. d. frá að samþ. þær eins og þær liggja nú fyrir.