31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi taka undir það, sem hv. frsm. og hv. þm. Árn. hafa sagt um þetta mál, að ástæðan til þess, að við í fjhn. hölluðumst að því að létta dálítið bifreiðaskattinn, var sú, að hann var orðinn svo ósanngjarnlega þungur, að til vandræða horfði. Ég ætla ekki að fjölyrða mikið um þetta mál, heldur aðeins undirstrika það, að þessi teg. skattgjalds, eins og skatturinn á gúmmíi, kemur langharðast niður á þeim, sem versta hafa vegina eins og t. d. í V.-Sk., þar sem heita má, að hver maður verði að nota bíla til nauðsynlegra flutninga á meira eða minna vondum vegum. Og þó það sé rétt, sem vakir fyrir þeim, sem mælt hafa með því að leggja háa skatta á bílana til þess að bæta vegina, þá er viss lína þar á milli, þar sem þessir hagsmunir mætast. Það er til hagsmuna fyrir bílana, að vegirnir batni, en ef þessi skattur, sem á að vera vegunum til bóta, verður að vera of þungur, þá verkar hann til skaðræðis fyrir flutninga. Ég held, að það sé sönnu nær að halda sér að því eins og stendur að skatta benzínið, þó gert sé ráð fyrir, að smátt og smátt fái menn betri leið til þess að ná sama takmarki, en að skatta sjálfa eyðsluna á bílunum. Ég á þar við till., sem hefir komið fram, þar sem gert er ráð fyrir, þegar batnar í ári og meiri innflutningur verður á bílnum, að láta landið hafa þann gróða, sem er af innflutningi bíla, en rennur nú til einstakra manna. En nú er enginn innflutningur á bílum, og þá er ekki af öðru að taka en eyðslunni eins og gert hefir verið. Og ég held því fram, að versti pósturinn í þessari álagningu sé slitið á gúmmíi hjá þeim, sem sízt mega við því.

Ég mun því greiða atkv. móti brtt. á þskj. 284, af því að ég álít þær ekki heppilegar fyrir málið í heild sinni.