31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég vil út af brtt. á þskj. 284 minna á það, að hv. till.menn hafa ekki gert neina grein fyrir því, hvort krafan um tvöfalt framlag frá hlutaðeigendum kunni ekki að valda erfiðleikum fyrir smærri kaupstaði og verzlunarstaði, sem verða að safna sínum bílaskatti saman um fleiri ár til þess að nota það samansafnaða á einu ári. Það hefir á engan hátt verið sýnt fram á það af þeirra hálfu, að þessir kaupstaðir muni þá geta án verulegra erfiðleika snarað út á því ári tvöföldu framlagi. Og fyrir því að fara þar að auki að setja skilyrði samkv. b-lið, sem gæti a. m. k. haft í för með sér þá kröfu, að kaupstaðirnir það sama ár legðu meira til vegaviðhalds en þeim sjálfum finnst hentugt, finnst mér þeir ekki hafa fært nein rök. Þetta ákvæði er gripið af handahófi út úr sýsluvegalöggjöfinni, þar sem þetta kemur eðlilega við og skapar sýslunum á ári hverju rétt til framlags úr ríkissjóði, ef þær leggja meira á sig en þetta. Ég held því, að hv. flm. brtt. á þskj. 284 hafi ekki tekizt að gera grein fyrir, að skatturinn komi réttlátlega og eðlilega niður, ef samþ. verður a-liðurinn í brtt. þeirra við 2. gr., og því síður , ef b-liðurinn verður samþ.