11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Halldór Stefánsson:

Það virðist vera ágreiningur um það hér, hvort Kristneshæli sé afhent ríkinu formlega eða ekki. Ég álít, að ekki þurfi að vera neinn vafi um það, að þetta hefir ekki verið gert ennþá. Það sést fyrst og fremst á því, að umráð þessa hælis eru í höndum sérstakrar n., sem sagt hefir verið hér, að sé skipuð af ríkisstj. Má vera, að svo sé, en undarlegt er, að hæstv. dómsmrh. virðist ekki vita til þess.

Það, að hælið hefir ekki verið afhent, sést m. a. á þessu frv. Hér er farið fram á að gera þennan lækni að embættismanni ríkisins. Hann er það ekki sem stendur. Hann er ráðinn af þessari nefnd og kjör hans eru ákveðin af stjórn hælisins. Þetta hefir heldur ekki verið skilið svo hingað til, jafnvel þótt ríkið leggi til allt fé til rekstrar hælisins; sést það bezt á því, að hælið hefir hingað til ekki verið talið í LR. með eignum ríkisins. Ég álít það engan úrskurð í þessu máli, þótt fram hafi farið hátíðleg vígsluathöfn, þegar hælið var fullgert, og ekki nema eðlilegt, að þeir væru þar við landlæknir og heilbrigðismálaráðh., því að það var vissulega merkur atburður, að hælinu skyldi vera komið upp. Annars sé ég ekki, hversvegna menn leggjast á móti þessari brtt., því að það virðist þó ekki vera hart aðgöngu eða óeðlilegt, þótt formleg afhending og móttaka til ríkisins þurfi að fara fram á hælinu áður en ríkið fer að hlutast til um launakjör hælislæknisins, sem ekki er starfsmaður ríkisins. Afstaða mín til þessa máls er sú, að ég tel algerlega óviðeigandi, að ríkið fari að skipa fyrir um launakjör þess manns, sem alls ekki er þess embættismaður. Og það sýnir bezt, hve brtt. fjhn. er eðlileg og sjálfsögð til þess að málið hafi skilyrði til þess að ná fram að ganga á þessu þingi.