16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv., sem nú hefir fengið samþykki Nd., fer fram á það eitt, að taka upp í lögin um laun embættismanna ákvæði um það, að starf yfirlæknisins í Kristnesi skuli heyra undir þau lög. Þetta sýnist sjálfsagður hlutur, bæði fyrir það, að læknirinn hefir óskað þess, og einnig vegna þess, að enginn vafi er á því, að hann á að starfa þarna áfram. Læknirinn óskar þess að fá notið þeirra hlunninda, sem því fylgja, að embætti hans komist undir þessi lög og eru aðallega fólgin í því, að hann færi að leggja fé í lífeyrissjóð embættismanna og einnig öðlast dálitla tryggingu fyrir ekkju sína, ef til kemur.

Í Nd. var dálítið um það deilt, hvort þetta ætti að samþ. nú þegar, eða hvort bíða ætti eftir formlegri afhendingu hælisins til ríkisins, en ég lít svo á, að sú afhending sé þegar um garð gengin. Það félag, sem beitti sér fyrir stofnun Kristneshælis og sá um byggingu þess, álít ég, að hafi þá lokið sínu hlutverki, enda hefir hælið síðan verið rekið fyrir ríkisfé sem ríkiseign, og á síðasta þingi var í fjárl. samin fyrir það sundurliðuð áætlun alveg eins og Vífilsstaðahæli. Þess vegna er enginn vafi á því, að hælið er afhent ríkinu, og verður því að líta á yfirlækninn sem embættismann ríkisins. Vona ég því, að frv. verði samþ., og ef því yrði vísað til n. að lokinni umr., sem líklega er réttast, þá mun vera bezt, að það fari til fjhn.