16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

18. mál, ljósmæðralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil fyrst þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessa máls. Út af ræðu hv. 2. þm. S.-M. vil ég taka það fram, að ég sé alls enga ástæðu til þess að vera að blanda frv. því, sem hér er til umr., við frv. um ráðstafanir út af fjárþröng sveitarfélaga. Það er að vísu svo, að í því frv. er gert ráð fyrir, að lagðar verði undir vissum kringumstæðum auknar byrðar á sýslufélögin, en það er því aðeins, að þau séu þess megnug. Annars kemur það ekki til greina. Að deila um það mál er nægur tími, þegar það kemur til umr. Mál það, sem hér er til umr., er því alveg óskylt. Hér er ekki um að ræða neinar auknar byrðar á sýslufélögin umfram það, sem nú er.