16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

18. mál, ljósmæðralög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég er alls ekki ánægð með launakjör ljósmæðranna. Mér virðast 300 kr. á ári sama sem engin laun, og það því fremur, þegar þeim er áskilið að eiga öll áhöld, sem tilheyra starfinu, en þau eru sem kunnugt er nokkuð dýr. Það má eflaust með sanni segja, að í hinum litlu umdæmum sé oft lítið að gera, en þá ber þess að gæta, að ljósmæðrum mun yfirleitt falla verr að vera þar, sem lítið er að gera, heldur en þar, sem þær hafa töluvert starf. Af því leiðir aftur, að við getur borið, að erfitt verði að fá ljósmæður, sem aflað hafa sér fullkominnar þekkingar á þessum sviðum, í hin fólksfáu héruð, ef ekki verður liðkað til um laun þeirra. Á þessa hættu vildi ég leyfa mér að benda hv. n., sem fjallar um málið. Hér er um vandasamt og ábyrgðarmikið starf að ræða, og þeim mun ábyrgðarmeira, sem héruðin liggja lengra frá lækni, og til þess virðist mér, að taka þurfi tillit. Launahækkunin, 50 kr. á 5 ára fresti, er og í smæsta lagi skömmtuð af ríkisins hálfu. Af því, sem ég nú hefi sagt, vil ég beina þeirri ósk til hv. allshn., að hún reyni að rýmka eitthvað launakjör ljósmæðranna.