16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég ætla ekki að fara að deila um launakjör ljósmæðranna, ætla ekki að hætta mér út í yfirsetukonuverkin. En ég vil leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 6. landsk., að ljósmæðurnar þyrftu að leggja sér til áhöld. Það stendur skýrum orðum í 4. gr., að ríkissjóður leggi til áhöld í ljósmæðraumdæmin, og landlæknir á að ákveða, í samráði við aðalkennara ljósmæðraskólans, hver þau skuli vera. Það er því bert, að þær þurfa engan kostnað að hafa af þeim.

Annars má vel vera, að í sumum umdæmum sé ástæða til þess að hækka eitthvað laun ljósmæðranna. Ef hv. 6. landsk. óskar að hækka laun yfirsetukvenna, þá er vissast fyrir hana að fá því framgengt með því að ljá till. hv. 2. þm. S.-M. um að laun yfirsetukvenna verði greidd úr ríkissjóði, sitt atkv. Ég er ekki í vafa um, að þá fær hv. 6. landsk. ósk sína uppfyllta. Annars skal ég ekki fara mörgum orðum um till. hv. 2. þm. S.-M. Ég leit svo á, að ekki væri ástæða til að blanda henni saman við þetta mál að sinni, eða frv. um fjárþröng sveitarfélaga, heldur vildi ég aðeins benda á það, að komið hefir til mála að breyta til í þessu efni. Það er ekki aðeins svo, að það liggi í loftinu, heldur er það blátt áfram orðið ljóst, að eitthvað verður að breyta til um fjármál sveitarfélaganna, annaðhvort að auka tekjur þeirra eða létta þær byrðar, sem á þeim hvíla, og það er einmitt það, sem till. ætlast til, að gert verði. Út af því, sem borið hefir verið fram í umr., að sum sveitarfélög mundu alls ekki þurfa neinnar hjálpar með, þá held ég mér sé óhætt að fullyrða það, að ekkert sýslufélag hér á landi hefir nógar tekjur. Það þarf ekki annað en benda á það, hve margt er ógert af þeim verkefnum, sem sýslufélögin hafa með höndum. t. d. í samgöngumálum. Það má fullyrða, að sýslusjóðirnir eru ekki komnir lengra en það eftir 60 ára starf, að þeir hafa aðeins að litlu leyti getað leyst af hendi það sjálfsagða skyldustarf sitt að koma á sæmilegum samgöngubótum í héruðunum. Ég veit, að það eru fleiri sýslunefndaroddvitar en ég, sem finna sárt til þess, hvað sýslufélögin eru ómegnug. Þess vegna skal ég taka það fram, að ég mun fyrir mitt leyti athuga þessa till. vel í n. og vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki það ekki á dagskrá fyrr en ég hefi gefið honum bendingu um það.