20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Síðan þetta mál var hér til umr. síðast hefir allshn. borið fram brtt. við 4. gr., þess efnis, að laun yfirsetukvenna utan kaupstaða greiðist algerlega úr ríkissjóði, í stað þess, að sýslusjóðir greiða nú 1/3 hluta, en ríkissjóður 2/3. Þessum breyt. var hreyft hér við 2. umr. og gerð grein fyrir þeim, en til viðbótar vil ég benda á það, að útgjöld sýslusjóða til heilbrigðismála eru tiltölulega mjög mikil, og veldur því einkum berklakostnaðurinn, sem er 2 kr. á hvert nef, ungt og gamalt sælt og vesælt. Í Árnessýslu nema útgjöld til heilbrigðismála 14—15 þús. kr., sem er um 1/3 af tekjum sýslusjóða. Þegar á þetta er litið, virðist eðlilegt, að þessar byrðar séu nokkuð léttar, ekki sízt þegar þess er gætt, að það hefir komið fram og er staðfest með lagafrv. bornu fram hér á þingi, að hagur sveitarfélaga er afarþröngur, ekki sízt sveitarfélaga utan kaupstaða.

Utan kaupstaða er ekki í önnur hús að venda en leggja á beina skatta, og á það gjaldþol er nú þegar orðið svo fulltreyst, að við liggur, að það brotni. Ég veit, að ríkissjóður á einnig erfitt, og því eðlilegt, að hv. þdm. hafi í huga að gera ekki þær byrðar þyngri en þörf er á. En þess er að gæta, að ekki mun af veita, að nokkuð verði létt á sýslufélögunum, ef þau eiga að geta staðið í skilum og innt fjárskyldukvaðir sínar í ríkissjóð af hendi. Ég ætla því, að ríkissjóði verði ekki mikill miski ger með þessari breyt. Vil ég því vænta, að henni verði vel tekið.

Um brtt. þær, sem útbýtt hefir verið hér á fundinum, er það að segja, að mér hefir ekki gefizt tími til að bera þær undir meðnm. mína, og get ég því ekkert sagt um afstöðu þeirra, nema að ég býst við, að þær syngi hver með sínu nefi.