20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

18. mál, ljósmæðralög

Guðrún Lárusdóttir:

Ég hefi borið hér fram 3 brtt. og bið ég afsökunar á því, hve seint þær koma fram, en til þess liggja sérstakar ástæður. Brtt. þessar eru allar smáar og skýra sig sjálfar.

l. brtt. er við 4. gr., um að hækka kaup ljósmæðra í umdæmum, þar sem íbúar eru ekki yfir 300, um 100 kr. á ári. 300 kr. á ári eru lítil laun, þar sem þess er gætt, að lítið bætast við aukatekjur í svo fámennum héruðum. Eins og launin eru ákveðin nú, er ekki hægt að búast við því, að sótzt sé eftir þessum stöðum.

2. brtt. er á þá leið, að í stað þess, að laun yfirsetukvenna hækki á 5 ára fresti, komi á 3 ára fresti, svo sem ákveðið er um farkennara. Byrjunarlaun þeirra eru 500 kr., en hækka um 60 kr. á 3 ára fresti. Þetta er sú starfsmannastétt ríkisins, sem helzt er sambærileg við ljósmæður um launakjör, og því virðist mér það ekki rétt, að þær lúti hér í lægra haldi, enda yrðu launin lengi að ná hámarki með hækkun á 5 ára fresti.

3. brtt. er við 8. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að ljósmæðrum sé greidd sanngjörn þóknun fyrir störf sín. Hún er ákveðin 7 kr. fyrir að taka á móti barni, og fæ ég ekki séð, að það sé sanngjarnt, þegar það er borið saman við kauptaxta á þýðingarminni störfum. Stúlka við fataþvott fær 7 kr. og fæði á dag. Stúlkur við fiskþvott og hreingerningar fá talsvert meira en 7 kr. Ljósmóðurstarfið er eitt hið mesta ábyrgðarstarf, sem til er innan þjóðfélagsins. Það má segja, að tvö mannslíf séu ætið í veði, og að mestu varði handtök og þekking ljósmóðurinnar, hversu fer í hvert sinn. Að öllu athuguðu sýnist mér með öllu ófært að bjóða minna en 10 kr. fyrir slíkan starfa.

Ég hefi þá rakið þessar brtt. og vænti þess, að þær, a. m. k. tvær hinar síðasttöldu, nái fram að ganga, og hv. þdm. sýni, að þeir meti þessi störf svo mikils, að efnilegar stúlkur séu ekki fældar frá þeim vegna lélegra launakjara.