20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Ég verð að játa, að hæstv. ráðh. gat ekki sannfært mig um það, að rétt væri að fella till. n. Hæstv. ráðh. gat þess, að ef numinn væri burt þessi 1/3, sem sýslusjóðir greiddu af launum ljósmæðra, þá mundi aðhaldið verða lítið hjá þinginu með að halda laununum niðri. Mér þykir leitt að heyra þessi ummæli frá hæstv. ráðh. og tek mér nærri að þurfa að svara þeim, en mér finnst, að í þeim felist hreint afskaplega mikil vantraustsyfirlýsing til þingmanna, og satt að segja finnst mér, að í þeim felist bending til hv. þm. um það, hvort ekki sé réttast fyrir þá að hafa sig heim. (JónÞ: Það væri nú kannske ekki svo fjarri að taka til athugunar. — JBald: Við þurfum að samþ. stjórnarskrána fyrst). Nú, þurfti þess? — Hæstv. ráðh. var að tala um 65 þús. kr., en ég komst nú ekki upp í nema rúmlega 40 þús. (PM: Það eru 32500 kr., sem sýslufélögin greiða samtals. — Dómsmrh.: Þá eru 2/3 af laununum 65 þús. kr., eins og ég sagði). Það getur verið, en það kemur þá fram, að hér er ekki um mikið að deila.

Þá lýsti hæstv. ráðh. því yfir, að ljósmæður væru sýslunarmenn, sem heyrðu undir vald sýslunefnda, og því væri eðlilegt, að sýslufélögin greiddu þeim laun. En því er hér til að svara, að laun ljósmæðra eru ákveðin af Alþingi. Ég er ekki viss um það, að launin væru svona há, ef þau væru ákveðin af sýslunefndum. Það er enginn vafi á því, að Alþingi hefir hér bakað sýslufélögunum útgjöld án þeirra samþykkis. Þess vegna finnst mér ríkissjóði standa næst að greiða þessi laun. Annars veit ég ekki til, að það sé neitt sjálfsagt fyrirkomulagsatriði þó sýslufélög veiti eitthvert starf, að þá eigi laun fyrir það starf endilega að greiðast af sýslufélaginu. Ég skal t. d. minna á hreppstjórastarfið, sem sýslumennirnir, formenn sýslunefndanna, veita, en laun fyrir það starf eru greidd alveg úr ríkissjóði. En þrátt fyrir það væri tæplega hægt að núa Alþingi því um nasir, að það færi ógætilega með ákvörðun þeirra launa. Stofnlaun hreppstjóra eru, eins og kunnugt er, 80 kr., eða nálega jafnhá og laun ljósmæðra voru fyrir 20 árum, sem þá voru 70 kr. á ári. Alþingi hefir ekki hækkað laun hreppstjóranna. Það sýnir, að það kann að fara með það vald, sem því er trúað fyrir og hleypur ekki í að hækka launin að tilefnislausu. Ef því á að sýna fram á það, að þinginu sé ekki trúandi til þess að ákveða laun ljósmæðra, þá þýðir ekki að ætla að sanna það með því að benda á, að ríkissjóður eigi að greiða launin, heldur lægi satt að segja nær að tilfæra sem ástæðu, að þar sem þingið væri skipað karlmönnum, þá mætti búast við, að þeir yrðu of hjartagóðir við ljósmæðurnar. (Dómsmrh.: Þingið er ekki skipað eintómum karlmönnum). En við því verður ekki gert meðan þingið er þannig skipað.

Hæstv. ráðh. talaði fagurlega um það, að sveitar- og sýslufélög væru ekki verr stödd en ríkissjóðurinn. Ég skal ekki um það deila. Ég veit bara, að hagur sveitar- og sýslusjóða má ekki verri vera. Það er svo um þau sýslufélög, sem lítið hafa lagt fram til umbóta, að þau hafa orðið alveg útundan í samkeppninni um opinbera styrki. Því er svona farið um ýms héruð; þeim hefir verið stýrt þannig, að gjöldin hafa verið lág, en ekkert þess vegna gert til umbóta eða til að létta íbúunum lífsbaráttuna, en þessi sveitar- eða sýslufélög komast ekki hjá því að taka stórt stökk, ef íbúar þeirra eiga að halda lífi, og þá fara útgjöld þessara félaga fram úr öllu hófi. Ég vil leggja áherzlu á þann aðstöðumun milli ríkissjóðs og sveitar- og sýslusjóða, að þar sem ríkissjóður hefir ýmsa möguleika til tekjuöflunar, þá hafa hinir enga möguleika. Það er þetta, sem skilur. Enda má benda á það, að með því að höggva mjög nærri sýslusjóðunum getur svo farið, að þeir verði ekki færir um að standast skuldbindingar sínar gagnvart ríkissjóði, og þess vegna þarf ekki að líta svo á, að þessar fáu þúsundir, sem hér er um að ræða, séu hrein og bein útgjöld fyrir ríkissjóðinn.