20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

18. mál, ljósmæðralög

Pétur Magnússon:

Ég vil láta það koma fram nú, að þó brtt. á þskj. 185 séu bornar fram af allshn., þá tel ég mig hafa óbundið mitt atkv. um þær. Þegar formaður n. hreyfði þessum till. á nefndarfundi, þá óskaði ég eftir því, að álits hæstv. fjmrh. yrði leitað um till. og síðan yrði hún borin undir n. og rædd, en þetta hefir ekki verið gert, og ég hefi ekki séð brtt. síðan, fyrr en nú á þessum fundi. Hún mun þó líklega hafa verið lögð fram á laugardaginn, en af einhverjum ástæðum hefir hún farið framhjá mér. Ég ætla ekki að lengja umr., en tek það fram, að ég áskil mér óbundið atkv. um fyrri tölul. á þskj. 185, en um seinni liðinn verð ég að játa, að honum get ég ekki fylgt eins og hann er orðaður. Þar er gert ráð fyrir, að sýslunefnd eða bæjarstjórn megi með samþykki ráðherra ákveða að greiða skipuðum ljósmæðrum eftirlaun, og þau eftirlaun eigi að greiðast úr ríkissjóði. Mér sýnist þetta óeðlilegt fyrirkomulag og næstum óverjandi, að fá sýslunefndum og bæjarstjórnum fjárveitingarvald yfir ríkissjóði, en hér er ekki um annað að ræða. Mér finnst þetta slíkt principspursmál, þó ekki sé um mikla fjárupphæð að ræða, að ekki sé rétt að leggja út á svo vafasama braut.

Ég vil svo að síðustu mælast til þess við hv. form., að hann óski að fá umr. frestað. Að öðrum kosti verð ég að greiða atkv. gegn þessari brtt.