20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

18. mál, ljósmæðralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð. Ég er viss um það, að ef samþ. verður nú, að ríkissjóður borgi öll laun ljósmæðra utan kaupstaða, þá kemur fljótt fram krafa um það, að laun ljósmæðra í kaupstöðum verði einnig greidd á sama hátt. Ég fæ heldur ekki séð, hver eðlismunur það er, sem gerir það að verkum, að ríkissjóður á frekar að greiða fyrir þessi störf úti um sveitirnar heldur en í kaupstöðunum. Það væri þá sú eina ástæða, að hér ætti að hlaupa undir bagga með sveitunum til bráðabirgða, en ég sé ekki á brtt., að þetta eigi að vera bráðabirgðaráðstöfun, og ég vil endurtaka það, að það þarf að sníða frv. alveg upp, ef á að gera ljósmæðurnar alveg að starfsmönnum ríkissjóðs. Þær hafa verið starfsmenn sýslufélaganna hingað til, það hefir verið viðurkennt, en aftur á móti viðvíkjandi hreppstjórunum, þá vil ég benda á, að þeir hafa alltaf verið viðurkenndir starfsmenn ríkisins, þar sem þeir eru m. a. lögreglustjórar hver í sínum hreppi. Ég vil því vona, að hv. d. samþ. ekki þessar brtt., því það er sama sem að bregða fæti fyrir frv., en sú var upphaflega ein meining þess, að láta sömu lög gilda um allar ljósmæður. hvort sem þær væru skipaðar ljósmæður eða starfandi án skipunar.