20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

18. mál, ljósmæðralög

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr. um þetta mál. Ég ætla ekki að deila um það, hvorir aðila séu ófærari til þess að greiða ljósmóðurlaunin, en ég get ekki annað en tekið undir með hæstv. dómsmrh. um það, að ég sé engan eðlismun milli sýslufélaga og bæjarfélaga í þessu efni. Það er vitanlegt, að flest bæjarfélög eru í vandræðum með sín fjármál, og það má ganga út frá því sem alveg vísu, að bæjarfélögin vilja velta þessari byrði af sér yfir á ríkissjóðinn, ef samþ. verður á þessu þingi, að ríkið greiði laun ljósmæðra í sveitunum. Og þó sú krafa komi ef til vill ekki fram á þessu þingi, þá kemur hún áreiðanlega seinna, og það verður hamrað á henni þangað til hún nær fram að ganga.

Hv. frsm. var að tala um ferðakostnað ljósmæðra í þessu sambandi, en hann kemur þessu máli ekkert við, því hann er hvorki borgaður úr sveitar-, sýslu- eða ríkissjóði, heldur er hann alstaðar greiddur af hlutaðeigendum. En viðvíkjandi því, sem hann minntist á, að ljósmæður væru færri í kaupstöðum heldur en í sveitum, þá er það að vísu rétt, en hins ber líka að gæta, að ljósmæðrum í kaupstöðum er skylt að greiða hærri laun en í sveitum. Ef svo fer, að umr. verði ekki frestað, eins og hv. 4. landsk. hefir þó óskað eftir, þá ætla ég að leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við 4. gr. frv., 1. málsgr., á þessa leið: Orðin „í kaupstöðum“ og „úr bæjarsjóði, en utan kaupstaða að einum þriðja hluta úr sýslusjóði og að tveimur þriðju hlutum“ falli niður, — og þýðir breytingin það, að laun allra ljósmæðra greiðist úr ríkissjóði að öllu leyti. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.