20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

18. mál, ljósmæðralög

Pétur Magnússon:

Það er misskilningur hjá hv. frsm., að þessi prentvilla í brtt. hafi villt mér sýn. Er svo ákveðið í frv., að sýslusjóðir greiði 1/3 og ríkissjóður 2/3 af launum ljósmæðra utankaupstaða. Í 5. gr. frv. segir, að sýslunefndir, með samþ. ráðh., og bæjarstjórnir skuli ákveða hæð eftirlaunanna. Á meðan fyrra ákvæðið er óbreytt, er ekkert við það að athuga, að sýslusjóðir ákveði eftirlaun, og er ekki óalgengt í l., að aðrir en Alþingi greiði nokkurn hluta slíkra greiðslna. En ef leggja á alla greiðsluna á ríkissjóð, þá er óeðlilegt að láta sýslusjóði hafa völd til að ákveða eftirlaunin. Þá á auðvitað að yfirfæra það vald til Alþingis. Alþingi á að ákveða eftirlaunin eins og ríkisféhirðir greiðir þau. Þess vegna myndi það valda ósamræmi, ef fyrri till. yrði samþ., og því fór ég fram á það við formann n., að till. væri frestað. Vona ég svo, að hv. frsm. skilji nú, við hvað ég á.