20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Það hafa nú komið fram ýmsar brtt. Við þetta frv. Að því er snertir brtt. hv. þm. Hafnf., þá lýsi ég yfir því, að ég er henni mótfallinn, og get ég vísað til þeirra raka, er ég hefi flutt hér áður um þetta mál. Þykir mér hart, ef á sama stendur um það, þótt menn verði að greiða upp undir 100 kr. ferðakostnað handa ljósmæðrum. Kemur þetta auðvitað niður á einstaklingum bæja og sveita, því að ég veit ekki betur en að bæjar- og sveitarfélög samanstandi af einstaklingum.

Ágreiningur okkar hv. 4. landsk. er á öðru sviði en ég hafði haldið. Sýslunefndir hafa ekki vald um hæð eftirlaunanna, heldur ráðherrann. Hinsvegar skildi ég þessa gr. svo, að það ætti alls ekki að fara að ákveða neina töflu fyrir launum ljósmæðra, heldur ætti ráðh. að ákveða þau í hvert sinn. En hann myndi oftast vera alveg ókunnugur sveitum og héruðum. Þess vegna eru sýslunefndir látnar hafa þetta tillöguvald. Get ég enda ekki skilið, að ekki megi vera sama ákvæði um eftirlaun sakir vanheilsu og sakir slysa.

Er þetta ekki flókið mál og engin ástæða til að taka það út af dagskrá. Maður sér svo sem, hvað verða á, en ég býst sízt við því, að málið græði nokkuð á því, að því verði komið út á fleiri refilstigu en þegar er orðið.