20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

18. mál, ljósmæðralög

Einar Árnason:

Þetta frv. er nú búið að ganga í gegnum hv. Nd., og mun það ekki hafa tekið þar neinum þeim efnisbreyt., að orð sé á gerandi. Það er líka búið að ganga í gegnum 2. umr. hér í d., og nú er 3. umr., lokaumr. En þá rignir niður fjölda brtt., svo að helzt er að sjá, sem málið sé að komast í óefni. Þessar brtt. snerta allar launakjör ljósmæðra og það, hverjir skuli greiða launin. Tel ég illa farið, að nú skuli enn vera tekið að leiða umr. inn á þessa braut. Þetta var deilumál um mörg ár, en leystist svo fyrir 2 árum. Var hægt að búast við, að una mætti við þá lausn að því er til launakjaranna kemur, án þess að farið væri að róta upp í þessu á ný.

Það er svo um ljósmæður sem aðra opinbera starfsmenn, að um það má deila, hvort laun séu nógu há. En vafamál er það, hvort heppilegt muni að blanda því inn í frv. þetta, sem ekki er til þess ætlað að hreyfa við launakjörum ljósmæðra. Ef nú á að fara að hreyfa við þessu, gæti það orðið til þess, að frv. næði ekki fram að ganga, og er þá ekkert unnið fyrir þá þm., sem vilja nú á ný fara að vekja þetta mál upp.

Ég mun ekki ræða brtt. á þskj. 200, þar sem farið er fram á beina hækkun á launum ljósmæðra. En ég vil aðeins benda hv. flm. á, í sambandi við brtt. á þessu þskj., að margir þeir, sem þurfa að leita til yfirsetukonu, eru svo fátækir, að þeir eiga ekki 10 kr. til, án þess að ég sé að halda því fram, að yfirsetukonur séu ofhaldnar af þessum 10 kr. En ég veit líka, að þeir, sem betur eru efnum búnir, láta oft meira en hinar lögboðnu 7 kr. Get ég því búizt við, að ljósmæður beri að meðaltali ekki minna en 10 kr. úr býtum fyrir hverja fæðingu. Er það líka eins gott fyrirkomulag, að þeir, sem búa við betri efni, greiði heldur betur fyrir störfin og létti þannig á hinum. Tek ég þetta fram til þess að henda hv. flm. á, að þessu má ekki gleyma.

Þá vil ég aðeins drepa fáum orðum á brtt. allshn. við frv., þar sem n. — mér skilst af umr. þeim, sem hér hafa farið fram, meiri hlutinn — leggur til, að laun ljósmæðra utan kaupstaða greiðist öll úr ríkissjóði. Hv. frsm. færir þá ástæðu fyrir þessu, að hagur sýslusjóða sé svo þröngur, að þeir geti ekki borið þessi útgjöld. Ég skal játa, að hagur þeirra er ekki góður, en hagur ríkissjóðs er þá heldur ekki glæsilegur. Hv. frsm. n. sagði, að sýslusjóðir hefðu enga möguleika á því að útvega sér tekjur. Við vitum báðir, að sýslusjóðir hafa aðeins eina leið til þessa, sem sé þá, að leggja útgjöld á sveitarfélögin. Því meiri útgjöld sem sýslunefnd ákveður, að sýslusjóður skuli hafa, því meiri útgjöld leggur hún á hreppana. Þetta er tekjustofn sýslusjóðs. Er auðvitað hægt að ofbjóða honum, en svo er um alla tekjustofna.

Það mun nú láta nærri, að þessi þriðji hluti af ljósmæðralaunum utan kaupstaða nemi 150 kr. á hvert sveitarfélag á landinu. Væri ekki ósennilegt að áætla það 1 kr. eða minna á hvern gjaldanda sveitarfélaganna. Skal ég játa, að nokkuð munar um þetta, en þegar Alþingi verður á allan hátt að skera við neglur sér útgjöld vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs, þá er ekki tímabært að leggja á ríkissjóðinn þennan nýja bagga. Treysti ég mér því ekki til að mæla með því, að gjöld þessi séu flutt yfir á ríkið, enda þótt ég vilji fúslega játa, að sýslusjóðir eiga nú erfitt uppdráttar.

Þá er önnur brtt. frá hv. allshn., þar sem gert er ráð fyrir, að sýslunefndir hafi heimild til að veita ljósmæðrum eftirlaun með samþykki ráðh. Veit ég nú ekki, hvernig þetta á að verða í framkvæmdinni. Býst ég ekki við, að ráðh. geti sagt annað en já eða nei. Geri ég ráð fyrir, að hver ráðh. myndi samþ. að síðustu, heldur en að taka á sig þær óvinsældir, sem af neitun hans myndi leiða. Annars vil ég benda á það, að til er betri leið til þess að sjá öldruðum ljósmæðrum fyrir lífsframfærslustyrk. Veit ég ekki betur en að í Nd. hafi verið mál á döfinni, sem líklegt er til að leysa þennan vanda og losa ríkissjóð við að þurfa að veita þessi eftirlaun. Gæti það líka átt við um aðra starfsmenn.

Samkv. þessu vildi ég láta sitja við það, sem nú er ákveðið í gildandi l. um laun ljósmæðra. Og ef hv. þm. þykir nokkurs um vert, að málið gangi gegnum þingið, þá ættu þeir að athuga, hvort rétt er að halda til streitu öllum þessum till.