03.03.1933
Efri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

30. mál, útflutningur hrossa

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 4. landsk. hafði þau orð um setningu bráðabirgðalaga þessara, að þau væru óviturleg. Mun hann þar sennilega hafa átt við, að þeirra væri ekki þörf, því ekki væri þörf á markaði erlendis fyrir þessa útflutningsvöru landsmanna. En þar er ég á gagnstæðri skoðun. Ég tel þvert á móti, að ekki sé frekari þörf á markaði fyrir aðrar framleiðsluvörur okkar en einmitt hrossin, og að því beri að vinna á næstu árum að afla markaðs fyrir þau. Það ber nauður til að minnka þessa vöru, fækka hrossunum. Verður því að nota hvert tækifæri, sem býðst í þessu efni. Af þessum ástæðum þótti stj. ekki rétt að setja stólinn fyrir dyrnar, svo að menn gætu ekki notað sér þá markaðsmöguleika á þessari vöru, er buðust eftir 15. okt.

Í þessu sambandi vil ég benda á, að það er eitt ákvæði í 1. nr. 50 23. júní 1932, sem ég tel mjög vafasamt. Það er takmarkið um, að ekki megi flytja út hross eftir 15. okt. Þá er mjög skammt liðið frá réttum og menn ekki almennt búnir að hafa upp á hrossum sínum. Þá getur auðveldlega staðið svo á, að skipaferðir falli ekki fyrr en nokkrum dögum seinna. T. d. féll ekki ferð með hrossin út í haust fyrr en 23. okt. En eins og nú er háttað um hrossamarkaðinn, má ekki fara að panta sérstök skip til þess að sækja hrossin hingað, heldur verður að nota skipakost þann, er fyrir er, eftir því sem ferðir falla. Af þessum ástæðum, sem ég nú hefi greint tel ég þetta takmark í lögunum frá 1932 of þröngt. Það vildi að vísu svo til í haust, að það var ekki mikill fjöldi hrossa, sem flutt voru út. Þau voru um 100 talsins. En vel getur svo farið, að þau verði fleiri síðar.

Þar sem nú hér er um að ræða útflutning á þeirri framleiðsluvöru, sem ekki er ástæða til þess að auka, heldur þvert á móti, þá tel ég, að nauðsyn sé að hafa heimild þá, sem í bráðabirgðalögunum felst. Hitt er vitanlegt, að ráðuneytið verður að gera fyllstu kröfur um meðferð hrossanna, bæði að því er snertir umbúnað og fóðrun. Sé þessa vandlega gætt, þá hygg ég, að við fremjum ekki meira miskunnarleysi á hrossunum en tíðkazt hefir hjá okkur Íslendingum, þar sem þau hafa orðið að berja gaddinn og hrekjast úti í hverskonar hrakveðrum. Slík meðferð mun sízt betri en þó að þau séu flutt út með góðum aðbúnaði síðla að haustinu.