03.03.1933
Efri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

30. mál, útflutningur hrossa

Pétur Magnússon:

Hæstv. atvmrh. misskildi aths. mína, að ég hefði talið bráðabirgðalögin óþörf, af því að ég teldi ekki þörf á markað fyrir íslenzk hross erlendis. Ég tel þvert á móti mikla þörf á auknum markaði fyrir þau. Og þegar af þeirri ástæðu tel ég, að ekki megi gera neitt það, sem orðið getur til þess, að álit þeirra fari þverrandi erlendis.

Á síðasta þingi mætti sá ráðunautur Búnaðarfélags Íslands, sem hrossaræktin heyrir undir, oft á fundum hjá landbn. Var mál þetta rætt þar allmikið, og hann lagði alveg sérstaka áherzlu á, að bannaður væri með öllu útflutningur hrossanna þennan tíma, sem til er tekinn í lögunum frá í fyrra. Taldi hann þess mikla þörf, ekki aðeins af mannúðlegum ástæðum, heldur og öllu frekar af hinu, að vissa væri fyrir því, að þessi vetrarútflutningur spillti mjög áliti hrossanna erlendis. Ég verð nú að segja, enda þótt ég sé ekki persónulega kunnugur þessum hlutum, að mér finnst þetta álit ráðunautsins hafa við rök að styðjast, því að það er skiljanlegt, að hrossin, sem koma feit og stirð af fjallinu, þoli illa að standa bundin á bás 5—6 sólarhringa í einu. En þann tíma mun ferðin með þau út taka. Það er þetta, sem ég nú hefi tekið fram, sem ég hefi við bráðabirgðalögin að athuga. Hinsvegar tel ég ekki rétt af stj. að grípa til setningar bráðabirgðalaga um málefni, sem þingið er nýbúið að fjalla um, eins og átti sér stað í þessu tilfelli, nema þá að knýjandi nauðsyn beri til, en ég get ekki séð, að sú nauðsyn hafi verið fyrir hendi þegar lög þessi voru sett. Hæstv. atvmrh. sagði, að það hefðu verið um 100 hross, er flutt hefðu verið út síðastl. haust, þetta umrædda tímabil. Þar sem ekki var um meiri útflutning að ræða en þetta, þá hygg ég, að það hafi skipt litlu máli fyrir bændur, hvort hross þessi voru kyrr í landinu eða ekki.