14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

30. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Hermannsson):

Eins og hv. dm. muna, lá fyrir síðasta þingi frv. til 1. um útflutning hrossa, og náði það samþykki. Landbn. þessarar d. lítur svo á, að aðalhugsun þess frv. hafi verið sú, að gera tilraun til að bæta markað fyrir hross, með því að hafa betri vöru á boðstólum og fara betur með hana, þar til hún kæmist í hendur kaupanda. Þar er ákvæði um það, að ekki megi flytja hross út um hávetur, og þó að n. líti svo á, að þetta sé rétt stefna á venjulegum tímum, þá hefir n. þó orðið sammála um að heimila undir vissum skilyrðum útflutning hrossa að vetrinum næstu 3 árin. N. ætlast til þess, að eftir þann tíma gildi l. frá því í fyrra óbreytt, og leggur því til, að þessi heimild verði sett þannig inn í l., að ekki þurfi að hrófla við þeim, þegar hún fellur úr gildi. Að vísu er ekki hægt að segja um það nú, hvað lengi kreppan varir, en n. þótti vissara að láta þessa heimild gilda næstu 3 árin. Ef þörf er á henni lengur, getur Alþ. auðvitað framlengt hana þegar þar að kemur.

Ég vil þá fyrir n. hönd mælast til þess, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem felst í till. n. á þskj. 142.