03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég geri ráð fyrir, að n. geti orðið sammála um að taka til athugunar þær bendingar, sem komu fram í ræðu hv. þm. Borgf., til 3. umr. En um það atriði frv., að ávallt þurfi að leita samþykkis vitamálastjóra, er hv. þm. taldi svo vafningasamt að útvega, er það að segja, að n. virtist það vera gott og réttmætt, vegna þess, að á þann hátt væri bezt tryggður hlutlaus úrskurður á milli þeirra einstöku manna, sem vilja gera jarðrask eða efnisnám þar, sem hætta stafar af því, og hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstjórna, sem eiga um það að ákveða. Það er ekkert ólíklegt, að í því efni geti oft orðið ágreiningur og jafnvel ekki örgrannt um, að upp geti risið hreppapólitík og því líkt, sérstaklega þar, sem þröngt er um land. Þá er það enginn ágalli heldur, að úrlausnin komi utan takmarka þess svæðis, sem deilan á sér stað. Mér virðist, að það sé ekki meiningin með 1. þessum, að í hvert skipti, sem maður þarf að taka möl, þá þurfi hann að sækja um það til vitamálastjóra. Mér virðist, að gangurinn yrði sá, eins og 3. gr. bendir á, að þegar leyfi sé gefið út til efnisnáms fyrir tíma, sem þó yrði ekki lengri en 5 ár í senn, ef frv. yrði að lögum, þá yrði það hreppsnefnd eða bæjarstjórn, sem í því praktíska tilfelli gæfi það og veldi svæðið til efnisnáms, ef það svæði lægi innan þeirra takmarka, sem 2. gr. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. innan 500 metra frá takmörkum verzlunarlóða og 800 metra frá byggð. Mér virðist, að gangurinn yrði sem sagt á, að þegar bæjarstj. eða hreppsn. er búin að velja svæði, þar sem hún telur hættulaust, að efnisnám fari fram, þá útvegi hún leyfi vitamálastjóra, eða e. t. v. ráðh., og auglýsi svo fyrir kaupstaðar- eða þorpsbúum, að á þessum stað sé leyfilegt að taka möl, grjót eða því um líkt, en ekki á öðrum stöðum. En sem sagt, þær aths., sem hv. þm. Borgf. kom með, tel ég sjálfsagt, að n. muni vera mér sammála um að athuga til 3. umr., en hvort af því leiðir, að komið verði með frekari brtt. í þessu efni, skal ég ekkert um segja. Ef menn verða ásáttir um, að þetta sé brýn þörf, þá skal ekki mælt á móti því, en svona fljótt á lítið sé ég ekki, að frv. geti orðið til neins verulegs baga, ef rétt er með farið.