15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Pétur Ottesen:

Ég á hér 2 brtt. við þetta frv. Sú breyt. er umorðun á 1. gr. frv. og um að bæta nýrri gr. í frv.

Við 2. umr. gerði ég grein fyrir því, að ég væri óánægður með ákvæði í 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ekki megi leyfa efnistöku eða gera jarðrask innan lóðartakmarka kauptúna eða sjávarþorpa, nema með samþ. vitamálastjóra. Ég veit, að víða hagar svo til, að alveg er hættulaust að taka efni með ströndum fram, svo sem möl, grjót og sand, þó í kauptúns- eða sjávarþorpslóð sé. Það ætti víða að geta verið öruggt, til þess að ekki væri lengra gengið í þessu efnisnámi en hættulaust má telja, vegna hugsanlegra ýmiskonar bygginga í framtíðinni, að kveða svo á um þetta, að landeiganda sé gert að skyldu að leita álits og samþykkis viðkomandi sveitar- eða bæjarstjórnar og framkvæma ekkert jarðrask án slíks samþykkis. Það ætti að vera nógu tryggilega gengið frá þessum hlutum með því að fela þessum stjórnarvöldum að úrskurða, hvað óhætt sé í þessu efni. Vitanlega eru sveitarstjórnir skipaðar þeim mönnum, sem hafa það fyrst og fremst að markmiði að sjá um heill og velferð þeirra sveita eða kauptúna, sem þær eiga að ráða yfir, svo sem verksvið þeirra nær til.

Ég gerði ráð fyrir því í minni brtt., að ef ágreiningur yrði út af úrskurði sveitarstj. um þetta, sem fyrir gæti komið, þá gæti landeigandi, sem þætti rétti sínum hallað, skotið máli sínu til atvinnumálaráðuneytisins, sem gæfi svo úrskurð í málinu eftir till. vitamálastjóra, og yrði það fullnaðarúrskurður. Þessu gæti fylgt talsvert mikil fyrirhöfn, að leita til vitamálastjóra í Reykjavík um þennan úrskurð. En í flestum tilfellum tel ég, að þetta mundi vera óþarft.

Mjög er undan því kvartað úti um byggðir landsins, að nýjar og nýjar kvaðir sé alltaf verið að leggja hreppstjórum og sveitarstjórnum á herðar án nokkurs sérstaks endurgjalds. Sum þessi vinna, sem alltaf er verið að auka við sveitarstjórnirnar, mun koma að nokkru liði. En um mikinn hluta hennar má segja, að hún sé ekki annað en skriffinnska og óþörf tízka, sem gengur yfir eins og faraldur. Hér er nú á ferðinni eitt slíkt skilgetið fóstur skriffinnskutízkunnar. Hér er beint enn inn á þá braut, að ekkert megi ganga fyrir sig, áður en leitað er til yztu endimarka, til þess að fá úrskurð, sem ekki hefir snefil af meiri tryggingu í sér fólginn en flestir úrskurðir mundu hafa heima fyrir.

Með þessum ákvæðum, sem ég vil setja í frv., er stefnt að því, að gerð sé athugun af vitamálastjóra um það, hvernig umhorfs er í kauptúnum. Og þar, sem svo hagar til, að það gæti stafað hætta af því, að landeigendur hefðu óbundnar hendur með að raska landi sínu með ýmiskonar efnisnámi, ætti vitamálastjóri að tilkynna viðkomandi sveitarstjórn álit sitt um það. Eftir það sé henni svo óheimilt að leyfa efnisnám, þar sem vitamálastjóri hefir talið það hættulegt framkvæmdum í framtíðinni.

Þessar till. mínar koma ekki til af því, að ég álíti sveitarstjórnir ekki færar um að hafa það eftirlit í þessu efni, sem öruggt má telja, heldur álít ég þetta vera fyrsta lið í nauðsynlegri athugun um það, hvernig til hagar í kauptúnum landsins, svo sem um bryggju- og hafnarstæði í framtíðinni. Því að þótt þessi efnistekja komi ekki í bága við ákvarðanir yfirstandandi tíma, getur hún, eins og tekið hefir verið fram, komið í bága við byggingu mannvirkja í framtíð.

Ég hefi gert ráð fyrir því, að þótt vitamálastjóra sýnist ekki ástæða til að banna með öllu efnisnám innan takmarka einhvers kauptúns, geti hann þó bannað það á vissum svæðum á landi þess, vegna áðurnefndra bygginga.

Vænti ég, að hv. d. fallist á, að réttara sé að haga þessu eins og ég hefi gert till. um, því að með því er meiri trygging fengin fyrir því, að jarðrask komi ekki í bága við framtíðarframkvæmdir heldur en í 3. gr. frv. eins og það er nú.

Ennfremur vænti ég þess, að hv. d. fallist á, að rétt sé að létta óþarfa ómaki af sveitarstjórnum í þessum efnum.