15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. sagðist hafa komizt við af því, sem ég sagði um þá erfiðleika, sem þetta frv. leggur sveitar- og bæjarfélögum á herðar. Þykir mér þetta nú að vísu ótrúlegt, og gæti ég fremur trúað, að eitthvað hafi eimt eftir af þeirri viðkvæmni hjá hv. þm., sem að honum setti við næsta mál á dagskrá hér á undan, frv. til hjúkrunarkvennalaga, sem hv. frsm. stóð í nánu, að ég ekki segi óeðlilegu sambandi við. En svo að ég sleppi öllu gamni, þá verð ég að láta í ljós undrun mína yfir þeirri niðurstöðu hv. þm., að fyrirhöfnin verði hin sama samkv. till. mínum og eftir ákvæðum frv., og skal ég nú draga fram muninn í þessu efni samkv. mínum till. og ákvæðum frv., til skilningsauka fyrir hv. þm. Samkv. frv. verður hver sá landeigandi, sem gera vill jarðrask í landi sínu, að sækja um leyfi til slíks til vitamálastjóra, sem aftur leitar umsagnar hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstj. út af beiðninni. Eftir að vitamálastjóri seint og síðar meir hefir fengið umsagnir hinna hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarstj., getur þannig loks komið til mála, að viðkomandi jarðeigandi fái leyfi vitamálastjóra til að taka efni eða gera jarðrask í landi sínu, en þyki jarðeiganda hallað á sig í úrskurði vitamálastjóra, getur hann skotið málinu til fullnaðarúrskurðar ráðh. Samkv. mínum till. þarf landeigandi hinsvegar ekki að sækja alla þessa krókaleið hingað til Reykjavíkur, til þess hér að fá leyfi vitamálastjóra til efnistökunnar, heldur nægir honum að snúa sér til hreppsn. í einum eigin hreppi til þess að fá leyfið, sem mundi útkljá þetta á einum degi, í stað þess sem það mundi taka marga mánuði eftir ákvæðum frv. — Ég sé, að hv. frsm. brosir, en við, sem þekkjum afgreiðsluhraða stjórnarráðsins, þegar leita þarf til þess í einu eða öðru, göngum þess ekki duldir, að bíða verður eftir þessum úrskurði vitamálaskrifstofunnar fleiri fremur en færri mánuðina, og ég þykist enda vita, að hv. frsm. sjálfur ali engar slíkar tálvonir í brjósti um þetta efni. Slíkur dráttur gæti hinsvegar haft í för með sér, að sú framkvæmd, sem efnistaka er nauðsynleg fyrir, verði að falla niður á þeim tíma, sem hún er áætluð, og getur slíkt haft mjög mikil óþægindi í för með sér, t. d. ef um húsbyggingu er að ræða. Þessi er munurinn á mínum till. og ákvæðum frv., sem hv. þm. Vestm. er hér að tala fyrir og verja.

Ég get ekki fallizt á, að hv. frsm. hafi rétt fyrir sér með þann gífurlega kostnað, sem hann sagði, að mundi leiða af framkvæmd síðari brtt. minnar, ef samþ. yrði, þar sem svo segir, að vitamálastjóri skuli gera skrá um þau landssvæði innan kaupstaða og kauptúna, þar sem sérstök hætta getur stafað af efnisnámi. Mér dettur ekki í hug, að vitamálastjóri geri út leiðangra gagngert í þessu skyni, heldur að hann láti athuga þetta jafnframt því, sem unnið er að öðrum framkvæmdum, vitabyggingum, hafnarbyggingum, bryggjugerðum o. s. frv. Er vitanlegt, að vitamálastjóri sjálfur og aðstoðarmenn hans eru á stöðugu ferðalagi hvert sumar vegna slíkra framkvæmda víðsvegar um landið. Það er því eins og hver önnur fjarstæða, þegar því er haldið fram, að auka þurfi liðsaflann á vitamálaskrifstofunni vegna þessa ákvæðis, þar sem þannig verður hægt að vinna að þessu smátt og smátt, enda felur þessi till. mín jafnframt í sér, að við efnistökuleyfið sé ekki aðeins tekið tillit til þeirra skemmda, sem af slíku jarðraski gætu leitt, heldur líka haft viðhorf til væntanlegra framkvæmda á hverjum stað. Skildist mér á hv. frsm., að honum ægði allur sá kostnaður, sem af þessu mundi leiða, en ég vænti þess, að ég hafi með þessum orðum tekið þann ótta frá honum. Hinsvegar er á það að líta, að vitamálastjóri hefir enga aðstöðu til að leyfa eða banna efnistöku úti á landi án þess að hafa athugað staðhætti í hverju tilfelli, og er því hreint og beint humbug að vera að leggja þetta undir vitamálastjóra, ef honum ekki er ætlað að fella úrskurð sinn að rannsökuðu máli, og er ólíkt meiri trygging að fela bæjar- og sveitarstj. þetta, sem þekkja alla staðhætti út og inn, eins og mínar till. ganga út á. Vitamálastjóri er vitanlega alls ekki dómbær í þessum efnum án þess að hafa kynnt sér alla málavöxtu. Það má því vera öllum ljóst, að mínar till. veita meira öryggi í þessum efnum, jafnframt sem þær minnka mönnum fyrirhöfnina af framkvæmd l. að miklum mun frá því, sem yrði samkv. ákvæðum frv. óbreyttum.

Þá vil ég benda á eitt atriði enn, mjög þýðingarmikið, sem mínar till. eru miðaðar við, en frv. gengur framhjá. Samkv. frv. er þannig gert ráð fyrir, að efnistökuleyfi gildi um 5 ár, en eins og liggur í augum uppi, geta orðið ýmsar þær breyt. af sjávargangi og öðrum ástæðum á fjörusvæðinu, sem efnisnám hefir verið leyft í, sem geri það að verkum, að ekki sé óhætt að veita efnistökuleyfi í fjörunni næsta ár á eftir. Að veita slíkt efnistökuleyfi fimm ár í senn skilyrðislaust með öllu, getur beinlínis stefnt því fjörusvæði í voða, sem um er að ræða. Við þessu hefi ég séð í brtt. mínum, því að samkv. þeim getur bæjarstj. eða hreppsnefnd, ef ástæður breytast, hvenær sem er fellt leyfið úr gildi eða takmarkað svæði það, sem áður var leyfð í efnistaka. Er þessi varnagli nauðsynlegur, því að aðstæður geta fljótt breytzt af sjávargangi eða í árósum af hvorutveggja í senn sjó og vatni. Með því að binda efnistökuleyfið við 5 ár er engin undantekning gerð í þessu efni.

Ég held því, að menn geti ekki verið í vafa um það, að brtt. mínar taka ákvæðum frv. fram í verulegum atriðum. Er betur fyrir þessu máli séð með mínum till. frá öryggislegu sjónarmiði, og þó stýrt hjá þeirri óþarfa fyrirhöfn, sem samkv. frv. er lögð eins og þegnskylda á þá menn, sem hlut eiga að máli.