15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

26. mál, jarðrask við sjó í kaupstöðum, kauptúnum og sjávarþorpum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Þrátt fyrir ræðu hv. þm. Borgf. fæ ég ekki betur séð en að sú rétta leið í þessu máli sé einmitt farin í stjfrv. Vegna hins öra vaxtar kaupstaðanna í landinu hlýtur að koma að því fyrr en síðar, að banna þurfi að taka byggingarefni í fjörunum, og ég held, að það sé ekki rétt að láta hreppsn. einar hafa úrskurðarvaldið í þessum efnum, því að það er hætt við, að þeim kunni að þykja viðurhlutamikið að taka þessi hlunnindi af íbúunum, og álít ég því réttara að fela færasta manninum, sem völ er á í þessum efnum, að gefa undanþágur frá ákvæðum 1., eins og gert er samkv. frv. — Skal ég svo ekki orðlengja frekar um þetta, enda er hv. þm. Borgf. fullkomlega ásáttur aðalhugsun frv., en vill aðeins hafa aðra aðferð til að koma henni fram.