04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

32. mál, ullarmat

Pétur Ottesen:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, af því að ég er ekki jafnsannfærður um það og hv. frsm. n., að vandkvæðum eða missmíðum, sem e. t. v. hafa verið á ullarmatinu undanfarið, verði kippt í lag með frv. þessu. Það er náttúrlega svo, eftir því sem mér skilst, að það veldur mestu um það, hvernig matið tekst hjá ullarmatsmönnum, sem sjálfir skoða ullina og flokka hana. Samkv. þar til settum reglum, sem fyrst voru gefnar út áður en 1. um ullarmat voru samþ. 1916, sem svo voru aftur endurnýjaðar 1926, þá er mjög skýrt kveðið á um það, hvernig eigi að meta og flokka ull. Yfirullarmatsmennirnir, sem eru og hafa verið fjórir, hver í sínu umdæmi, hafa vitanlega ferðast um á þessum svæðum, þeir tala við ullarmatsmennina og sýna þeim á verklegan hátt, hvernig eigi að fylgja og framkvæma þessar settu reglur um ullarmat. Ennfremur hafa þessir yfirullarmatsmenn haft fundi með sér á fárra ára millibili, og ef farið er eftir reglum, sem settar eru um þetta, þá er mér sagt, að þessir menn ættu að koma saman á þessu ári. Þetta er vitanlega gert til þess, að þeir beri ráð sín saman og ræði um framkvæmd ullarmatsins, svo að þeir fylgist alltaf með og haldist í hendur um það, að samræma ullarmatið svo sem hægt er með slíku eftirliti með ullarmatsmönnum, þeim mönnum, sem raunverulega framkvæma ullarmatið. Ég er þess vegna ekki trúaður á það, að þótt tekinn sé einn af þessum 4 ullarmatsmönnum og hann gerður að nokkurs konar yfirmanni, svo að það vald, sem nú liggur í höndum 4 manna, verði þannig lagt í hendur eins, að í þessu út af fyrir sig liggi sú trygging, sem til verulegra bóta má verða á því, sem áfátt kann að vera um ullarmatið. Ég held, að það, sem þar kann að vera áfátt, liggi að einhverju leyti í mistökum, sem orðið hafa á framkvæmdum hjá þeim eiginlegu ullarmatsmönnum. Og ég sé ekki, að þau mistök geti ekki orðið eftir sem áður, þótt yfirstj. sé færð í þetta horf.

Önnur ástæðan til þess, að einhverju kann að vera áfátt í þessu efni, liggur áreiðanlega í því fyrst og fremst, að ullargæðin eru í einstökum héruðum ákaflega mismunandi. T. d. er ull á Norðurlandi og jafnvel vesturhluta landsins og norðausturhluta talin vera miklu betri en hér á Suður- og Suðausturlandi, sem að nokkru leyti getur átt rót sína að rekja til fjárstofnsins eða kynferðis fjárins, en hinsvegar líka mikið til veðurfarsins. Hér á Suðurlandi er miklu meiri úrkoma og óstöðugri veður en á Norðurlandi, og af því leiðir, að ullin verður þelminni, en togmeiri heldur en á Norðurlandi.

Í þriðja lagi eru náttúrlega mikil vandkvæði á því að flokka ull, svo að nokkur veruleg trygging sé í fyrir kaupendur. Enda er hún ákaflega misjafnlega vel þvegin, og ýmiskonar meðferð hennar er mismunandi frá því að hún er tekin af kindinni og þangað til hún er flutt á verzlunarstaðinn. En öll meðferð á ullinni hefir ákaflega mikil áhrif á gæði hennar, þegar á að fara að vinna úr henni dúka. Það er þess vegna mjög margt, sem kemur til greina og erfitt verður að yfirstíga í þessu efni. Það eru mjög miklir annmarkar á því með núv. fyrirkomulagi að geta yfirleitt látið ullina njóta álits hjá kaupendum á erlendum markaði. Viðvíkjandi verkun ullarinnar býst ég við, að stórt spor væri stigið með því einu að koma upp þvottahúsum fyrir ullina, eins og víða gerist annarsstaðar, og raunar er nokkur vísir til hér á landi. Þetta út af fyrir sig hygg ég, að væri mikilsvert til þess að vanda verkun ullarinnar og auka henni álit.

Ég vildi aðeins drepa á þessi atriði, og sem sagt, ég hefi ekki beint lagzt á móti þessu frv., en í fyrirvara mínum felst fullkomið vantraust á því, að með þessari breyt. sé stigið verulegt spor í áttina til þess að auka eða bæta samræmi matsins. Þetta er ekki fjárhagsatriði hvað útgjöldin snertir, þar sem gert er ráð fyrir að hækka laun eins af matsmönnunum. Auk þess má náttúrlega búast við, að ferðakostnaður hans verði miklu meiri en hinna, þar sem mér skilst, að hann hljóti að eiga að ferðast ekki einungis um sitt eigið svæði, heldur víðar og víðar. En það er ekki eftir því að sjá, ef maður gæti gert sér von um verulegan árangur af starfinu. En ég get ekki annað en gert mér litlar vonir um árangur af þessari breyt. út af fyrir sig.

Ég vil minna á það, að fyrir allmörgum árum lá fyrir þinginu frv. eða till. um breyt. viðkomandi fiskmatinu, líkt og hér er farið fram á um ullarmatið. Ýmsir, sem þóttust vel þekkja til þessara hluta, létu þá í ljós mjög mikið vantraust á því, að fiskimatinu væri í nokkru betur borgið með slíkri breyt. Niðurstaðan varð sú, að Alþingi féllst ekki á till., sem þá lágu fyrir, og vildi heldur búa við það skipulag, sem verið hafði.