04.03.1933
Neðri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

32. mál, ullarmat

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil þakka hv. n. fyrir þær undirtektir, sem þetta smáfrv. hefir fengið í hennar höndum. Og ég get einnig verið þakklátur fyrir þær bendingar, sem komið hafa frá þeim hv. nm., sem skrifaði undir nál. með fyrirvara. Hv. þm. Borgf. lýsti yfir því, að hann sé ekki jafnsannfærður sem hinir um það, að veruleg bót væri fengin með þeirri breyt. á l., sem hér um ræðir. Það þykir nú yfirleitt bót á vinnubrögðum, að verkstjóri sé einn, en ekki 4, að húsbóndi sé einn, en ekki margir. Stjórninni hefir litizt, að nokkur vinningur væri fyrir hana að hafa sérstakan mann sér við hönd, sem stj. ætti aðgang að til þess að úrskurða eða hafa að ráðunaut, þegar þyrfti að úrskurða um ágreining út af ullarmati. Ráðuneytinu þykir þægindi að geta snúið sér til eins sérstaks manns, sem hafi einskonar löggildingu til að vera ráðunautur stj. í þessum efnum. Það er ekki allsjaldan, að kvartanir koma, bæði frá útlendum og innlendum mönnum, um það, að samræmis sé ekki nægilega gætt. Og þar sem ráðuneytið hefir í hyggju, eftir að hafa fengið upplýsingar frá þeim mönnum, sem með útfl. og ullarmat hafa að gera, að taka til yfirvegunar, hvort ekki þyrfti að gera nokkra breyt. á reglum þeim, sem settar hafa verið um flokkun ullar, þá þótti í sambandi við þær fyrirhuguðu reglur hentugra, að þessi breyt. væri áður komin í kring.

Það er náttúrlega rétt fram tekið hjá hv. þm. Borgf., að margt af þessu misræmi, sem verið hefir á ullarmatinu, er að kenna mistökum hjá undirullarmatsmönnum. En það má vænta þess, að þegar skipaður er einn yfirullarmatsmaður, þá geri hann sér meira far um að geta verið betur vakandi um eftirlit með því, að ullarmatsmenn úti um landið geri skyldu sína. Eftirlitið ætti því að verða betra en ráðuneytið nú á kost á, ef það hefir engan slíkan yfirmann í þjónustu sinni.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Borgf. einnig benti réttilega á, að ullargæðin eru mjög mismunandi í einstökum héruðum landsins, þá vildi ég minna á, að það mun vera regla yfirleitt, þegar ull er seld út úr landinu, að ekki fylgi einungis matsvottorð, heldur og merki, er sýni, úr hvaða landsfjórðungi ullin er. Það er vitanlegt, að 1. flokks sunnlenzk ull er ekki seld sama verði og 1. flokks norðlenzk ull. Ég veit ekki betur en að þegar ullin gengur kaupum og sölum, þá sé þeirrar reglu venjulega gætt, að tala um t. d. 1. flokks sunnlenzka ull, vestfirzka, norðlenzka o. s. frv.

Hv. þm. Borgf. benti einnig réttilega á það atriði, sem stj. hefir tekið til íhugunar, en það eru þvottahúsin. Ég býst við, að með tímanum þyki það eina fullkomna ráðið til þess að fá það samræmi í ullarmatið, sem æskilegt væri, að koma upp þvottahúsum. En hinsvegar þótti stj. ekki að svo komnu máli tími kominn til þess að gera neitt frá löggjafarvaldsins hálfu í því að fyrirskipa um almenn þvottahús fyrir ullina. Hinsvegar vill stj. vinna að því eins og hún getur á öðrum vettvangi.

Hv. þm. Borgf. lagði ekki svo mjög mikið upp úr þessari hækkun á launum ullarmatsformanns, en óttaðist, að ferðakostnaður hans mundi aukast allmikið. En þá vil ég benda á, að þótt ferðakostnaður ullarmatsformanns verði e. t. v. nokkru meiri, þá mun aftur sparast nokkuð við fundi ullarmatsmanna. Það mun stundum. a. m. k. reynast svo, að ferðakostnaður eins manns kringum landið verði ekki dýrari en ferðakostnaður þriggja ullarmatsmanna, sem koma hingað til Reykjavíkur til þess að sitja fund með fjórða ullarmatsmanninum hér.

Að öðru leyti finnst mér ekki ástæða að fara fleiri orðum um þetta að svo stöddu.