15.03.1933
Efri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get látið í ljós ánægju mína til hv. landhn. fyrir meðferð hennar á frv. þessu. Ég vil og geta þess, að svo virðist, sem þegar hafi vaknað nokkur áhugi úti á landi í sambandi við framkomu frv. þessa. Það hafa þegar komið fyrirspurnir til ráðuneytisins, þar sem spurzt er fyrir um það, hvort ný smjörbú, sem stofnuð kynnu að verða, myndu geta orðið aðnjótandi styrks þess, sem heimilaður er í núgildandi fjárl. til mjólkur- og smjörbúa.

Hvað snertir brtt. n., þá er ég þeim samþykkur, því að það var frá upphafi hugsun mín að hafa þetta eftirlitsmannsstarf ekki sem bitling, er skipt væri um við hver stjórnarskipti, heldur fastbinda það við forstöðumann efnarannsóknarstofu ríkisins. Hvað snertir kostnað þann fyrir smjörlíkisgerðirnar, er af eftirlitinu leiðir, þá mun hann tæplega nema meiru en 1/10 eyris pr. kg.

Legg ég svo til, að brtt. hv. landbn. verði samþ.