17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Þorláksson:

Mér þykir leiðinlegt, að hv. n. hefir komizt að þeirri niðurstöðu að halda áfram í löggjöfinni ákvæðum viðvíkjandi mjólkurlíki og öðru þess háttar, og tel ég þetta sérstaklega óviðeigandi eftir að mönnum nú almennt er orðið það ljóst, hver munur er á hollustuháttum mjólkur og mjólkurlíkis. Í ljósi þeirrar þekkingar ætti þvert á móti að strika út úr 1. landsins öll ákvæði þessu viðvíkjandi, nema ef ástæða þætti til að banna það. En ég skal ekki fara frekar út í þetta en ég hefi gert, að benda hv. n. á, að mér sýnist þetta vera til lýta á löggjöfinni.

Þá skal ég drepa nokkrum orðum á brtt. hv. 3. landsk. á þskj. 175. Get ég að ýmsu leyti tekið undir það, sem hv. 2. landsk. sagði um þessa till., en vil bæta því við, að mér finnst með þessari till. vera komið út í hreinar öfgar, þar sem gert er ráð fyrir að áskilja, að erlent smjörlíki, sem hingað er flutt, skuli blandað með íslenzku smjöri. Er vitanlegt, að lítið er flutt hingað inn af erlendu smjörlíki. Innlendu smjörlíkisverksmiðjurnar hafa að ýmsu leyti góða aðstöðu til að keppa um markaðinn við þær erlendu, m. a. geta þær venjulega boðið nýrri vöru, og innflutningsfrelsið á erlendu smjörlíki verður aðallega til að tryggja almenningi það, að innlendu verksmiðjurnar stilli verðinu í hóf, og verkar það þannig sem sjálfkrafa temprari á smjörlíkisverðið í landinu. Ég held og að með brtt. vinnist ekkert á í því efni að auka markaðinn fyrir íslenzkt smjör, því að markaðurinn hér á landi er ekki þess virði fyrir erlenda smjörlíkisframleiðendur, að þeir muni telja það ómaksins vert að sækja hingað smjör til að blanda smjörlíkið með, og held ég þess vegna, eins og hv. 2. landsk., að þetta muni verka sem aðflutningshindrun á erlendu smjörlíki, en þar með er kippt burt þeirri einu tryggingu, sem landsmenn hafa fyrir að fá smjörlíkið með sæmilegu verði, og má d. því ekki samþ. till. vegna hagsmuna almennings í þessum efnum. Till. er landbúnaðinum gagnslaus, og hennar er ekki þörf vegna innlendu smjörlíkisverksmiðjanna, sem hafa reynzt fyrirtæki með góðri afkomu undir þeim skilyrðum, sem þær nú búa við, og loks fer hún í bága við hagsmuni almennings í þessum efnum, eins og ég áður sagði, með því að till. nemur í burt þá einu tryggingu, sem smjörlíkisneytendur hafa fyrir því að fá smjörlíkið við hæfilegu verði.