17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Út af ummælum hv. 1. og 2. landsk. vil ég taka það fram, að þessa till. ber aðeins að skoða sem varúðarráðstöfun, enda felur hún ekki í sér fyrirskipun í þessu efni, heldur aðeins heimild, sem atvmrh. er í sjálfsvald sett, hvort hann notar eða ekki, og ráðh. er ekki tilneyddur að áskilja, að iðnaðarsmjörlíki, sem hv. 2. landsk. kallaði svo, falli undir þessi ákvæði. Hinsvegar er rétt að gera þessar varúðarráðstafanir, því að það er í senn nauðsynlegt og eðlilegast, að landsbúar sjálfir hafi hagnaðinn af smjörlíkissölunni, og eins af því að selja fituna í það. Þótt ekki sé ef til vill nú eins og stendur, getur síðar orðið hætta á því, að erlendir smjörlíkisframleiðendur, eins og t. d. Hollendingar, verði hættilegir keppinautar innlendu smjörlíkisframleiðendanna, og þá kemur til athugunar, hvort ekki sé rétt að nota þessa heimild, til þess að erlenda smjörlíkið eyðileggi ekki okkar innlendu smjörlíkisframleiðslu. Hv. 1. landsk. taldi þetta hættulegt vegna smjörlíkisneytendanna, sem hefðu í þessu tryggingu fyrir hæfilegu verði á smjörlíkinu, en ég býst við„ að nóg ráð yrðu til að fyrirbyggja allt okur í þessum efnum, t. d. með hámarksverði á smjörlíki, en ég skal annars játa það, að ég ber engan kvíðboga út af þessu.