17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Jón Þorláksson:

Ég veit ekki, hvort hv. 3. landsk. hefir tekið eftir því, að eins og brtt. hans er orðuð og eins og hún fellur inn í frv., veitir hún atvmrh. ekki heimild til að áskilja, að ákveðinn hundraðshluti af smjöri skuli vera í öllu smjörlíki, sem til landsins er flutt, heldur hefir atvmrh. um það tvennt að velja að áskilja, að smjörlíkið skuli blandað með íslenzku smjöri, eða leyfa sölu þess án þess að nokkurt smjör sé í því. Gat ég ráðið það af ummælum hv. 3. landsk., að tilætlun hans var þó ekki sú, að löggjöfin yrði þannig. Ég óttast ekki að veita stj., sem hefir nægilega opin augun fyrir hagsmunum fátækra þurrabúðarmanna, heimild til að áskilja, að í öllu smjörlíki, sem hér er selt, innlendu sem erlendu, skuli vera ákveðinn hundraðshluti af smjöri, en þetta fæst ekki með brtt. hv. 3. landsk., eins og ég hefi bent á. Hv. þm. færði nú fram þá einu ástæðu fyrir brtt., sem til er, að þetta væri gert vegna hagsmuna innlendu smjörlíkisframleiðendanna, en þeir þurfa ekki þessarar verndar með, enda hygg ég rétt, að þingið liti fremur á hag smjörlíkisneytendanna en framleiðendanna, sem geta unað sínum hag vel eins og hann er nú.