17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Frsm. (Jón Jónsson):

Það, sem fyrir mér vakir með að fá þetta ákvæði inn í lögin, er aðeins varfærni. Ég skoða þetta sem varúðarráðstöfun. Fari hinni innlendu smjörlíkisframleiðslu að stafa hætta af samkeppni við þá erlendu, þá má grípa til þessa ráðs, og eins og ég tók fram áðan, þá er þetta aðeins heimild fyrir ráðh. Getur hann því undanskilið iðnaðarsmjörlíkið, sem og er alveg sjálfsagt.

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að samkv. brtt. minni hefði ráðh. ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að leyfa innflutning á útlendu smjörlíki án nokkurs skilyrðis um blöndun með smjöri, eða þá að áskilja, að í því væri íslenzkt smjör. Ef þessi skilningur er réttur hjá hv. þm., sem ég skal ekki beinlínis mótmæla, þá er ég fyrir mitt leyti ekkert á móti því, að brtt. verði sett í það horf, sem hann benti á, ef það þykir skýrara.