17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

31. mál, tilbúningur og verslun með smjörlíki og fl.

Einar Árnason:

Hv. 1. og 2. landsk. hafa andmælt brtt. þeirri, er hv. 3. landsk. flytur á þskj. 175. Og mér skildist, að andstaða þeirra gegn henni byggðist mest á því, að hún myndi, ef samþ. yrði, verka sem aðflutningsbann á smjörlíki, og af því kynni aftur að leiða hærra verð á hinu innlenda smjörlíki en ef aðflutningur væri frjáls. Nú veit ég ekki annað en að innflutningur á smjörlíki sé bannaður og að lítið sem ekkert hafi flutzt inn af því í eitt til tvö ár, en það undarlega er, að verð á íslenzku smjörlíki hefir lækkað töluvert þennan tíma. Vitnar því reynslan í þessu efni alveg gegn staðhæfingu beggja þessara hv. þm. Þetta er staðreynd, sem ekki verður hrakin. Ég fyrir mitt leyti sé því enga ástæðu til þess að vera hörundssár fyrir því, þó að það verði upp tekið að fyrirskipa almennt, að allt smjörlíki, sem til landsins flyzt, skuli blandað íslenzku smjöri. Mun ég því greiða atkv. með brtt. hv. 3. landsk.