15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

35. mál, kjötmat og fl.

Björn Kristjánsson:

Ég ætla ekki að fara að andmæla þessu frv. Ég býst við, að það sé algerlega rétt stefna að smáherða á kröfunum um bætta meðferð á kjöti eins og öðrum ísl. afurðum, sem út eru fluttar, til þess að koma þeim í sem mest álit og hæst. verð.

Ég vildi aðeins leyfa mér að gera smáaths. við 4. gr. Í byrjun þeirrar gr. er svo fyrir lagt, að læknisskoðun fari fram á öllu sláturfé áður en því er slátrað, ef kjötið er ætlað til útflutnings fryst, kælt eða saltað, og mega ekki líða meira en 12 klst. frá þeirri skoðun til slátrunar. Hv. frsm. gat þess, að þetta ákvæði væri tekið upp eftir hliðstæðum ákvæðum í nágrannalöndum vorum, og væru þar talin nauðsynleg. Ég skal ekki segja um það, hvaða ákvæði gilda annarsstaðar eða hvernig þau eru framkvæmd. En ég held því fram, að þessi læknisskoðun á lifandi sauðfé sé algerlega gagnslaus, enda algerlega óframkvæmanleg. Sauðfé okkar er ákaflega harðgert og sér ekki á því neinn lasleika fyrr en það er alveg aðfram komið. Þetta vita allir, sem kunnugir eru fjárhirðingu. Mér er vel kunnugt að svo er þetta um ágætustu fjármenn víðsvegar. Líklega er það ekki nema á 3—4 stöðum, sem lærðir dýralæknar geta annazt þessa skoðun á lifandi fé, en á öllum öðrum stöðum í landinu verða héraðslæknarnir að gera það, eftir að hafa kynnt sér þessa kjötskoðun hjá dýralækni. Um lækna okkar er það að segja, að mjög margir þeirra eða flestir hafa aldrei komið nálægt fjárhirðingu; þótt sumir séu upprunnir úr sveit, hafa þeir byrjað nám ungir og naumast komið að skepnuhirðingu eftir það. Legg ég því lítið upp úr, þótt þeir líti yfir hina stóru fjárhópa, sem daglega er slátrað, kannske 1½ þús. alls á dag. Veitti þá ekki af 2—3 læknum, og þó óvíst um árangurinn. Nú er það svo víða, t. d. hjá mér, að héraðslæknirinn, sem annast kjötskoðunina, verður vitanlega oft að vera í læknisferðum heilan dag eða meira meðan slátrun fer fram. Er þá augljóst, að hann getur ekki annazt þessa skoðun, en að stöðva slátrun kemur ekki til mála. Að lögbjóða þessa skoðun og fylgja því bókstaflega er alveg sama sem að fyrirbyggja slátrun til útflutnings á mörgum stöðum í landinu. En ef ekki á að fylgja ákvæðinu, er það gersamlega tilgangslaust.

Ég skal til frekari áréttingar benda á Eyjafjörð. Þar eru tvö sláturhús nálægt hvort öðru, annað á Akureyri hjá K. E. A. og hitt á Svalbarðseyri. Nú er dýralæknir á Akureyri, sem annast kjötskoðun á báðum stöðum. Sennilega er ekki slátrað færra en 1½ þús. á Akureyri á dag, en eitthvað færra á Svalbarðseyri. Ætla ég, að það sé öllum ljóst, að einn maður muni ekki geta komizt yfir þetta verk með því að skoða hvern einasta skrokk í sláturhúsunum báðum, eins og sjálfsagt er, að hann geri.

Þá segir í 2. málsgr. 4. gr.: „Ennfremur skal læknisskoðun á öllu kjöti og innýflum fara fram þegar eftir slátrun og áður en kjötið er fryst, kælt eða saltað“. Við kjötskoðunina er ekkert að athuga, hún er vitanlega sjálfsögð. En öðru máli gegnir um þessa innýflaskoðun; hana tel ég ekki geta komið til mála. Til þess að framkvæma hana þyrfti læknirinn alltaf að vera í sláturhúsinu, en því er ekki hægt að koma við, eins og ég hefi þegar tekið fram. Get ég þá aftur bent á dæmið frá Akureyri, þar sem dýralæknirinn þarf að vera ýmist í sláturhúsinu þar, eða í sláturhúsinu á Svalbarðseyri, og getur því á hvorugum staðnum verið nema nokkrar klst. í senn. Þegar það nú er sjáanlegt, að ekki er hægt að framfylgja ákvæðum sem þessum bókstaflega, þá sé ég ekki, að rétt sé að setja þau í lög, og svo tel ég, að eigi að vera um öll ákvæði, sem ekki er hægt að hlíta. Það á ekki að setja þau í lögin.

Þá er ákvæði í síðustu málsgr. 4. gr., sem ég get heldur ekki fellt mig við eins og það stendur þar. Í upphafi málsgr. segir svo: „Ekki má slátra í löggiltu sláturhúsi sjúku sláturfé“. Hér þyrfti að fella niður orðið „löggiltu“, því að svo má skilja þetta, að í öðrum sláturhúsum en löggiltum megi slátra sjúku fé. En ég tel ekki, að slátra megi í nokkru sláturhúsi sjúku sláturfé.

Ég tók nú ekki eftir þessum agnúum á 4. gr. fyrr en rétt núna. Má því vel vera, að eitthvað fleira sé í frv., sem ég vildi gera aths. við, en það verður að bíða til 3. umr. úr þessu. Að endingu vil ég beina því til hv. landbn., að hún taki til athugunar þessar aths. mínar við 4. gr. og beri fram brtt. til lagfæringar henni. Sjái n. sér ekki fært að verða við þeim tilmælum, býst ég við að flytja brtt. við þessa gr. fyrir 3. umr.