15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

35. mál, kjötmat og fl.

Frsm. (Pétur Ottesen):

Út af því, sem þeir hv. þm. N.-Þ. og hæstv. atvmrh. sögðu um ákvæði 4. gr. frv., vil ég taka það fram, að landbn. var fyllilega ljóst, að nokkrir örðugleikar gætu orðið um framkvæmd sumra þeirra, og þá sérstaklega hvað læknisskoðunina snertir. Hvort því atriði yrði fylgt bókstaflega eða ekki, færi eftir því, hverjar kringumstæður væru fyrir hendi. Jafnframt leit hún svo á, að enda þótt það væri ekki fyllra en þetta, myndi þó felast í því töluvert öryggi. Þá mætti að sjálfsögðu athuga það, hvort réttara væri að láta þetta ákvæði koma fram sem reglugerðarákvæði eða beint í lögunum sjálfum.

Út af aths. hæstv. atvmrh. við þá brtt. landbn., að ákveða kaup aðstoðarmanna, þegar þeir ynnu í yfirmatserindum, „fyrir eitt ár í senn“, vil ég geta þess, að þetta átti að vera bending frá n. um það, að gætt yrði alls sparnaðar í þessu efni. En eftir að hafa heyrt skýringu hæstv. ráðh. get ég tekið þessa brtt. aftur, og geri það hér með.