17.03.1933
Neðri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

35. mál, kjötmat og fl.

Björn Kristjánsson:

Ég þarf naumast að gera grein fyrir brtt. minni á þskj. 174; hún er svo smávægileg, enda gerði ég það við 2. umr. Með henni er það aðeins tryggt, að ekki sé slátrað kindum með smitandi sjúkdóm á neinum slátrunarstöðum, hvort sem þeir eru löggiltir eða ekki. Ef frv. verður samþ. óbreytt, þá er ekki bannað að slátra sjúkum kindum á þeim slátrunarstöðum, sem ekki eru lög- giltir, en sem má í vissum tilfellum flytja frá saltkjöt til útlanda. Í brtt. er lagt til, að orðið „löggilt“ falli burt.

Ég talaði um það við 2. umr., að ég kynni illa við að hafa það ákvæði í 1., sem fyrirfram er vitað, að ekki er hægt að framfylgja; þesskonar ákvæði er læknisskoðun á sauðfé, sem á að slátra, og innýflum sláturfjár. Ég held fast við það, að þessi skoðun sé vitaþýðingarlaus og mundi í flestum tilfellum ekki verða annað en nafnið eintómt í framkvæmdinni.

En síðan 2. umr. fór fram, hefi ég talað við starfsmenn Samb. ísl. samvinnufél. um þessi ákvæði, og álíta þeir, að óhjákvæmilegt sé að taka þau upp í lögin vegna erlendra kaupenda. Verð ég að segja það fyrir mitt leyti, að þótt ég beygi mig fyrir þessu, þá kann ég mjög illa við að hafa ákvæði í l., sem víst er fyrirfram, að ekki verður fylgt.