16.03.1933
Neðri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera langorður og ekki heldur fara út í undirstöðuatriði, sem ræða má mikið um í þessu sambandi, hvort það princip, sem þessi löggjöf byggist á, sé rétt eða rangt.

En þar sem hv. frsm. talaði um, að mikil trygging lægi í því fyrir ríkissjóð, að ráðh. er ætlað að líta eftir þessu, þá verð ég að segja fyrir mitt leyti, að mér finnst sú trygging vera sáralítil, því að ráðh. hefir sáralítil völd samkv. þessum lögum. Það mun koma í ljós, þegar farið verður að framkvæma þessi lög. Ráðh. er skyldugur til að staðfesta félagið og gera það löglegt, ef 15 menn óska að njóta þessara kjara, og hann er skyldugur til að taka ábyrgðarlán fyrir þessa menn. Hann hefir bara dálítið vald til þess að skipta sér af, hvaða fjárhæð hvert skuldabréf, sem gefið er út, hljóðar upp á, en hann ræður ekki, hvort það er í ísl. kr. eða erlendri mynt. Honum er skylt að láta gera fyrirmyndaruppdrætti að slíkum húsum, og hann má neita að samþ. lóðir, ef honum lízt ekki á þær, og svo skipar hann endurskoðanda félagsins. Ég fæ ekki séð, að vald hans sé mikið meira en þetta. Mér virðist hann vera alveg á valdi þessa félagsskapar, þegar hann er stofnaður, um margt og mikið, og næstum því allt, sem félagsskapurinn vill samkvæmt þessum lögum. Hv. frsm. sagði, að engin áhætta stafaði af þessum 80%, og mér finnst hann leggja mikið upp úr því, að enginn megi fá veð á eftir. Ég get ekki skilið, að hann haldi því fram í alvöru til lengdar, að það hafi veruleg áhrif á ábyrgð ríkissjóðs, hvort einhver á veðskuld á eftir. (StgrS: Félagið hefir sameiginlega ábyrgð). Það er alltaf svo, þegar veðskuldir hvíla á hver á eftir annari, að þá hefir sá, sem á fyrri veðskuldina, betri tryggingu en sá, sem á síðari veðskuldina.

Mig langar til að spyrja hv. frsm. að einu. Hann segir, að af þessum 80% stafi engin áhætta. Getum við þá ekki verið sammála um að hækka heimildina um veðdeildarlán og láta það duga? Við skulum segja t. d. að hækka heimildina upp í 60%. Ef engin áhætta fylgir 80%, þá ætti lítil áhætta að stafa af 60%.

Ég held, að það sé betri aðferð til þess að styrkja menn í þessu efni en slík löggjöf, sem hér er um að ræða, ef hægt væri að hækka veðdeildarlánin. Ég skil heldur ekki, þegar hv. frsm. er að tala um, að veðdeildin láni út á hús, sem búið er að sprengja upp úr öllu valdi, því hún tekur ekkert tillit til þess, hvað húsin eru sprengd upp; þar kemur aðeins til greina mat veðdeildarinnar.

Ég vil benda á það, að hv frsm. sagði, að hér væri kostnaðarverð látið ráða, en ekki matsverð. En í þessu tilfelli er það oftast nær það sama, svo að slíkt getur aðeins munað mjög litlu.