23.03.1933
Neðri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

21. mál, byggingarsamvinnufélög

Tryggvi Þórhallsson:

Það er í beinu framhaldi af því, sem ég kom að við 2. umr. málsins, að ég hefi borið fram brtt. á þskj. 221. Ég lít svo á, að brtt. n. á þskj. 214, sem flutt er samkv. tilmælum hæstv. atvmrh., sé til bóta, þar sem rúmtak íbúða er ákveðið 500 tenm., en ég lít svo á, að þar að auki beri að ákveða þá hámarksupphæð, sem ríkið komi til með að ábyrgjast fyrir hverja íbúð. Ég hefi nefnt hér 15000 kr., og það þýddi, að hámarkskostnaður við hverja íbúð mætti verða 18000 kr. Til samanburðar má geta þess, að eftir upplýsingum um verkamannabústaðina, þá hafa stærri íbúðirnar kostað 11600 kr., en þær smærri 8400 kr. Ég vil þess vegna líta svo á, að það sé mjög ríflega til tekið hámarkið, sem ég hefi borið fram í minni till., og ég get fallizt á að hafa það hámark nokkuð þrengra, því að ég lít svo, á, að ekki komi til greina, að ríkið fari að ábyrgjast í stórum stíl íbúðir fyrir menn, sem hafa ráð á því að reisa dýrari hús en hér er gert ráð fyrir. Ég bar þetta undir hv. frsm., og geri ég ekki ráð fyrir, að lagt verði á móti till. úr þeirri átt.