22.02.1933
Efri deild: 7. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Sjútvn. Nd. flutti tillögu á þinginu 1930 um, að skipuð væri nefnd til þess að athuga vitamálin. Í samræmi við þetta var svo nefnd skipuð í þessi mál, og mun hún hafa afhent sjútvn. tillögur sínar í frumvarpsformi. Sjútvn. Nd. flutti síðan á vetrarþinginu 1931 frv., sem dagaði þá uppi vegna þingrofsins. Á sumarþinginu 1931 eða þinginu í fyrra var frv. ekki flutt, en stj. hefir nú þótt ástæða til að flytja frv. að nýju.

Þegar sjútvn. flutti þetta mál 1931, mun hún hafa breytt nokkuð frv. því, sem henni hafði verið afhent. Það frv., sem hér liggur fyrir, er sniðið eftir frv. sjútvn., en þó eru breyt. gerðar á fáeinum atriðum, og er gerð grein fyrir þessu í aths. við frv.

Frv. þetta má kalla starfsáætlun í vitamálunum. Sumum kynni þá að virðast, að á tímum eins og nú standa yfir sé til lítils að gera slíkt, en með talsverðum rétti má segja, að einmitt þessir tímar eigi að notast til þess að leggja niður fyrir sér, hvað gera á þegar rofar til. Annars er það vitaskuld, að um framkvæmdir í þessum efnum verður ekkert gert nema þingið ákveði.

Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.