21.03.1933
Efri deild: 30. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Jón Baldvinsson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. n., hvort ákvæðið í 2. gr. um skipun vitamálastjóra sé ekki nýtt, eða hvort þessi embættismaður sé nú skipaður af konungi. Hvað snertir brtt. n., þá hygg ég, að þær séu heldur til bóta. Þær eru í þeim anda, sem verið hefir hér uppi í þinginu, um það, að verja sem mestu af vitagjaldinu til byggingar og viðhalds á vitum. Þó er í brtt. sleginn sá varnagli, sem mun gera lítið úr þessu í framkvæmdinni, en það eru orðin „ef ástæður ríkissjóðs leyfa“. Viðvíkjandi afgreiðslu 1. till. finnst mér óviðkunnanlegt að samþ. hana eftir að búið er að benda á, að hún geti tæplega staðizt hvað orðalag snertir. Mér fyndist eðlilegast, að málið væri tekið af dagskrá, eða a. m. k. að till. væri tekin aftur til 3. umr., svo að n. geti athugað þetta betur.