24.03.1933
Efri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

25. mál, stjórn vitamála og um vitabyggingar

Einar Árnason:

Í 1. gr. er tekið fram, að ráðh. hafi yfirstjórn allra vitamála á hendi, og er sú stjórn bundin við lög á hverjum tíma. En þar sem ráðh. ber alla ábyrgð á vitamálunum, er eðlilegt, að hann sé að öllu leyti óbundinn í úrskurðum sínum um vitamál. En mér virðist mega skilja orðalag frv. á tveim stöðum þannig, að ráðh. geti ef til vill ekki alltaf að fullu komið vilja sínum fram, heldur hafi vitamálastjóri meiri ráð. Ég geri ekki ráð fyrir, að árekstrar milli þessara manna muni eiga sér stað að öllum jafnaði, en þó hefir mér þótt rétt að breyta því orðalagi 6. gr., að ráðh. skipi vitaverði „eftir tillögum“ vitamálastjóra, og komi í stað þess að fengnum tillögum. Eins og orðalagið er nú, er ráðh. bundinn við till. vitamálastjóra. En sé sú tilætlun, eins og ég býst við að sé, að ráðh. hafi hér óbundnar hendur sem yfirmaður vitamálanna, tel ég rétt að orða þetta þannig, að það orki ekki tvímælis. Ennfremur legg ég til, að samskonar orðalagi síðar í frv. sé breytt á sama hátt. Vænti ég þess, að hv. deild fallizt á þessar breyt.